Viðskipti innlent

Um­deild veltu­trygging nær að­eins til ferða­þjónustu­fyrir­tækja

Sylvía Hall skrifar
Veltutryggingin verður innleidd 1. október næstkomandi.
Veltutryggingin verður innleidd 1. október næstkomandi. Já.is

Veltutrygging sem Borgun tilkynnti á föstudag verður aðeins notuð í viðskiptum ferðaþjónustufyrirtækja svo hægt sé að standa við skuldbindingar við korthafa. Breytingin hefur því ekki áhrif á 97 prósent viðskiptavina fyrirtækisins að því er fram kemur í tilkynningu til viðskiptavina.

Töluvert hefur verið fjallað um veltutrygginguna undanfarna daga þar sem óljóst var hvort hún næði til allra viðskiptavina Borgunar. Til að mynda var það skilningur Samtaka verslunar og þjónustu að breytingin næði til allra atvinnugreina og töldu þau ómögulegt að verða við þessum kröfum.

Erfiðlega gekk að fá svör frá Borgun varðandi breytinguna en póstur var sendur til viðskiptavina í dag. Þar segir að ekki sé um skilmálabreytingu að ræða heldur sé þetta aðgerð til þess að lágmarka áhættu. Þannig sé hægt að standa við skuldbindingar við korthafa sem hafa keypt vörur og þjónustu fram í tímann.

„Tölvupósturinn, sem fjölmiðlar virðast hafa byggt fréttir sínar á, var sendur á um 3% viðskiptavina Borgunar og á einungis við um þá. Allt eru þetta aðilar sem eru í þeirri stöðu að selja mestmegnis þjónustu áður en hún er veitt. Ekki er um skilmálabreytingu að ræða, líkt og ranglega hefur komið fram, heldur er um að ræða aðgerð sem er heimil í gildandi skilmálum og snýr að því að lágmarka áhættu,“ segir í tilkynningu Borgunar.

Þá er ítrekað að engum greiðslum verði haldið eftir vegna vöru eða þjónustu sem hefur nú þegar verið veitt. Á það einnig við um fyrirtæki í ferðaþjónustu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×