Íslenski boltinn

Guðni bjartsýnn á að hægt sé að klára tímabilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðni er bjartsýnn á að Íslandsmótið geti haldið áfram.
Guðni er bjartsýnn á að Íslandsmótið geti haldið áfram. mynd/skjáskot

Guðni Bergsson, formaður knattspyrnusambands Íslands, er bjartsýnn á að hægt verða að klára Íslandsmótið hér á landi. Þetta kom fram í útvarpsþætti Fótbolta.net sem er á dagskrá X-ins 977 alla laugardaga.

„Það er þessi tveggja metra regla sem er mikilvæg í sóttvarnarúrræðum og hún á illa heima við fótboltaiðkun. Við vonum að þetta verði ekki langt tímabil, við vonum að þetta verði frekar vika eða tvær og við komumst í gegnum þetta að við getum æft á meðan við æfum án snertingar, jafnvel í hópnum en án snertingar,“ sagði Guðni meðal annars.

Þar vitnar hann í tilmæli sóttvarnarlæknis sem ÍSÍ hefur ítrekað við sérsambönd sín. Stefnt er að því að fresta öllum æfingum og keppnum sem innihalda snertingu til 13. ágúst hið minnsta. KSÍ hefur sem stendur frestað öllu til 5. ágúst og vill helst ekki þurfa fresta enn frekar.

Þá mun sambandið funda með yfirvöldum eftir helgi og Guðni er bjartsýnn á framhaldið. Það er að hægt verði að klára Íslandsmótið.

„Við erum búin að gefa út reglugerð þar sem við kveðum á að við ætlum að gefa okkur alla vega til 1. desember til að klára mótið ef við þurfum á að halda. Ef okkur seinkar um 1-2 vikur þá gerir það okkur erfiðara fyrir en við höfum tíma upp á að hlaupa. Lykilatriðið er að við náum tökum á þessum faraldri, pössum okkur vel og notum sóttvarnarúrræði.“

„Ég er bjartsýnn á að við klárum mótið.“

KSÍ hefur gefið út að ekki þurfi að leika alla leikina til að skera úr um hver endi uppi sem sigurvegari. Þá segir Guðni að nóvember sé hálfgerður varamánuður.

„Við töldum að 1. desember væri gott viðmið og svo erum við með þetta viðmið að við viljum alla vega klára 2/3 leikja svo að mótin verði í raun og veru gild. Ég held að það hafi verið gott að vera búin að setja þessa reglugerð,“ sagði Guðni að lokum.


Tengdar fréttir

Telur knattspyrnulið áfram geta æft

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, telur að æfingar knattspyrnuliða geti farið fram með sama hætti og undanfarnar vikur þrátt fyrir hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.

Klara: Dagsetningin kom okkur í opna skjöldu

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að dagsetningin sem ÍSÍ gaf út í dag; að hlé yrði gerð á æfingu og keppni 13. ágúst, sé ekki sú sem vonast var eftir en segir að heilsa landans sé í fyrsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×