Dómsmálaráðherra hyggst ekki tjá sig um ólguna meðal starfsfólks lögreglunnar á Suðurnesjum, meðan málið er til meðferðar í ráðuneyti hennar.
Erfiðlega hefur gengið að ná á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra síðustu daga, en hún er nú á faraldsfæti um landið. Fram hefur þó komið að Áslaug hafi lagt það til við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, að hann víki úr starfi lögreglustjóra.
Fjórir yfirmenn embættisins eru sagðir vinna að því að bola Ólafi úr embætti. Trúnaðarmaður lögreglunnar á Suðurnesjum fór um miðjan maí með tvær kvartanir um meinta ósæmilega framkomu lögreglustjóra og lagði fram í dómsmálaráðuneytinu.
Eftir það verður loft allt lævi blandið innan embættisins og ásakanir ganga á milli fylkinga.
Fréttastofu bárust loksins viðbrögð frá dómsmálaráðherra nú í hádeginu. „Sæll. Ég er úti á landi,“ skrifar Áslaug áður en hún segist ekki ætla að tjá sig efnislega um ólguna.
„Í ráðuneytinu er til meðferðar starfsmannamál tengd embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Unnið er að lausn málsins þannig að nauðsynlegri starfsemi embættisins verði áfram sinnt með eðlilegum hætti,“ skrifar Áslaug.
„Á meðan mál þessi eru enn til meðferðar í ráðuneytinu mun ég að öðru leyti ekki tjá mig um þau á opinberum vettvangi.“