Skoraði, fór í markið og varði frá hinum markverðinum á ögurstundu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samherjar Lucas Ocampos fagna honum eftir leik Sevilla og Eibar í gær. Eins og sjá má er hann í markvarðarbúningi enda þurfti hann að standa á milli stanganna undir lok leiksins.
Samherjar Lucas Ocampos fagna honum eftir leik Sevilla og Eibar í gær. Eins og sjá má er hann í markvarðarbúningi enda þurfti hann að standa á milli stanganna undir lok leiksins. getty/Fran Santiago

Lucas Ocampos kom mikið við sögu í 1-0 sigri Sevilla á Eibar í spænsku úrvalsdeildinni í gær.

Ocampos skoraði eina mark leiksins á 56. mínútu. Hann var þá réttur maður á réttum stað á fjærstönginni og kom fyrirgjöf Jesús Navas í netið.

Argentínumaðurinn brá sér svo í óvenjulegt hlutverk undir lok leiks. Þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma meiddist Tomás Vaclík, markvörður Sevilla, eftir að hafa lent í samstuði við Kike.

Sevilla var búið að nota allar fimm skiptingarnar sínar og Ocampos steig því fram, klæddi sig í búning Vaclík og setti á sig markmannshanskana.

Þegar ellefu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þurfti Ocampos að taka á honum stóra sínum. Eftir langt innkast Eibar barst boltinn á Marko Dmitrovic, markvörð Eibar, sem var kominn inn í vítateig Sevilla. Hann átti skot sem Ocampos varði vel. Pablo De Blasis tók frákastið en Navas bjargaði á línu.

Þetta var það síðasta sem gerðist í þessum leik og Sevilla fagnaði sigri sem þeir geta þakkað Ocampos fyrir öðrum fremur.

Argentínumaðurinn er markahæsti leikmaður Sevilla á tímabilinu. Hann hefur skorað þrettán mörk í spænsku úrvalsdeildinni. Sevilla er í 4. sæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

Mark Ocampos og markvörsluna undir lok leiksins má sjá hér fyrir neðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira