Það tók heimamenn í Vík í Mýrdal einungis sex vikur að reisa nýjan varnargarð austan við þorpið til að verja það gagnvart Kötluhlaupi, en jafnframt þurfti að hækka hringveginn þar sem hann liggur yfir garðinn. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Þegar við ætluðum að mynda verktakana að búa til garðinn, sem liggur út frá Víkurkletti, gripum við í tómt. Varnargarðurinn er kominn og líka búið að hækka og malbika þjóðveginn yfir garðinn. Það eru meira að segja tvær eða þrjár vikur liðnar frá því vinnuvélarnar fóru af svæðinu.

Það eru aðeins rétt tveir mánuðir frá því Vegagerðin samdi við lægstbjóðanda um verkið, fyrirtækið Framrás í Vík, en verklok eiga að vera 15. september í haust.
„Já, já. Við erum langt komnir með hann og komum til með að klára hann í haust,“ segir Jóhann Guðlaugsson, ýtustjóri og eigandi Framrásar ehf., þegar við spyrjum um framvinduna en okkur sýnist garðurinn nánast vera tilbúinn.
„Það er eftir svona fremri hlutinn af honum og svo setjum við aðeins grjót á hann.“
Starfsmenn verktakans sáum við úti við Múlakvísl að sækja efni í næsta verk en þaðan var efnið líka sótt í varnargarðinn. En teljast menn ekki hafa verið snöggir að þessu?
„Þetta gekk mjög vel, jú. Það þarf mikið að ganga á. Það er stórt verk framundan,“ svarar Jóhann.

Þeir eru fimm talsins, allt heimamenn, og ákváðu að drífa af varnargarðinn til að geta skellt sér í næsta verk, sem er að gera nýtt hringtorg á móts við Víkurskála og endurbæta þjóðveginn í gegnum þorpið.
Þetta er þriðji varnargarðurinn sem rís austan Víkur til að verjast hugsanlegri flóðbylgju niður Mýrdalssand um farveg Múlakvíslar.
-Heldurðu að hann muni gagnast?
„Það hefur enginn trú á að Katla komi hérna.“
-En það er kannski betra að vera.. þú tryggir ekki eftirá, eins og menn segja.
„Nei, nei.“
En Víkurbúar ættu vonandi núna úr þessu að geta sofið rólegri gagnvart Kötlu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.
Hér má heyra hversvegna sveitarstjórinn telur varnargarðinn mikilvægan.