„How dare you, Mr. Ferrell?!“ Heiðar Sumarliðason skrifar 2. júlí 2020 12:48 Lars Ericksong og Sigrit Ericksdottir. Hver man ekki eftir Will Ferrell-myndunum Holmes & Watson, Downhill og The House? Sennilega enginn, enda varla kjaftur sem borgaði sig inn á þær, og gengi Wills Ferrells eftir því ekki verið upp á marga fiska að undanförnu. Hver kvikmynd hans á fætur annarri hefur kolfallið í aðsókn og hans eina velgengni hefur verið í gegnum framhalds- og teiknimyndir. Það er þó eitthvað að rofa til hjá eftirlætis tengdasyni Skandinavíu, því nýjasta mynd hans, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, virðist vera að vekja nokkra kátínu meðal áskrifenda streymisveitunnar Netflix, þar sem hún var frumsýnd fyrir tæpri viku. Það þarf ekki að koma á óvart að Ferrell hafi ákveðið að stökkva á Netflix-vagninn, betur þekktan sem hið nýja beint á vídeó. Þetta er ekki ótroðin slóð hjá gamanmyndaleikurum á niðurleið, því þegar almenningur hætti að nenna út úr húsi til að sjá kvikmyndir Adams Sandlers, gerði hann það sama, fór í mjúkan faðm Netflix. Sjálfsagt hefur Netflix-velgengni Sandlers verið innblástur þessa skrefs Ferrells, og gáfulegt er það, því aðsókn á gamanmyndir hefur heilt yfir minnkað og áhorfendur meira farnir að vilja sjá þær heima í stofu. Það er spurning hvort þetta sé vegna breyttra áhorfsvenja, eða vegna þess að myndirnar hafa orðið stöðugt verri og áhugi fólks á því að borga sig inn á þær þ.a.l. dvínað. Mögulega er þetta beggja blands. Sakna gömlu tímanna Er raunverulega hlegið minna í bíó nú til dags, eða er gagnrýnandinn bara orðinn svona gamall? Mér finnst fátt jafnast á við að sitja í bíósal fullum af áhorfendum og hlæja frá mér allt vit. Ég man hins vegar ekki hvenær ég fór síðast á gamanmynd í bíó þar sem hláturrokurnar komu á færibandi. Sennilega var það þegar ég sá Borat árið 2006. Slíkar hláturveislur hafa undanfarin misseri ekki skilað sér í kvikmyndahús, reyndar ekki heldur á Netflix, ef út í það er farið. Þessar Netflix-myndir frá Sandler, og öðrum svipuðum grínistum, hafa ekki beint kveikt neina elda. Þær fara frá því að vera rétt svo þolanlegar, niður í að vera gjörsamlega óþolandi. Eurovision-mynd Wills Ferrells er hinsvegar það besta sem ég hef séð úr þessari röð Netflix-gamanmynda. Hún er a.m.k. sú eina þeirra sem ég hló töluvert mikið af. Það þarf þó að setja hana í rétt samhengi, því ég veit ekki hvort mér hefði verið jafn skemmt ef ég hefði greitt mig inn á hana í kvikmyndahúsi. Enda væntingastuðullinn almennt hærri þegar maður hefur reddað barnapíu, farið út úr húsi, borgað sig inn og keypt ofsaltað bíópoppið og rándýrt gosið. Mig grunar nefnilega að stjörnugjöfin væri þá eilítið lægri. En ég þurfti hins vegar ekki að fara út úr húsi, og því verð ég auðvitað að dæma hana út frá því sem hún er, Netflix-gamanmynd, og sem slík er hún nokkuð frambærileg. Annars leikþáttar sigið Annar leikþáttur er ekki jafn líflegur og sá fyrsti. Helsti vandi myndarinnar er að hún þjáist af því sem í handritaskrifum er kallað the second act sag, sem á íslensku væri hægt að þýða sem annars leikþáttar sigið. Fyrir þá sem ekki þekkja kvikmyndastrúktúrfræði, er handritum oftast skipt upp í þrjá leikþætti. Leikþáttur eitt er fyrsti fjórðungur myndarinnar, þar sem persónur og aðstæður eru kynntar. Annar leikþáttur er svo helmingur lengdar myndarinnar, og er hinn svokallaði átakaþáttur. Á meðan sá þriðji er fjórðungur lengdarinnar, líkt og sá fyrsti. Algengt vandamál höfunda eru einmitt erfiðleikar tengdir því að fylla þennan annan leikþátt, sem ætti að vera kjötið í sögunni. Annars leikþáttar sigið plagar því miður Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Myndin byrjar af ótrúlegum krafti, og er kynningin á persónum og aðstæðum svo meiriháttar skemmtileg að ég hló upphátt ótal sinnum, en líkt og áður segir, gerist það eiginlega aldrei hjá mér nú til dags. En þó að hann sé fyndinn, þá skortir þennan fyrsta leikþátt að unnið sé í þeim grunnatriðum sem mun þurfa til að keyra annan leikþáttinn áfram. Of oft er komið fram við persónusköpunina sem brandara, en því má líkja við að pissa í skóna, skammgóður vermir. Slík úrvinnsla gengur upp í fyrsta þætti, á meðan verið er að kynna aðstæður og heim sögunnar, en þegar kemur að uppskerunni, í öðrum þætti, er hún því miður rýr. Það eina sem hefði getað bjargað öðrum þætti myndarinnar er ef hann væri fyndnari en raun ber vitni. Hann skorar hins vegar ekki nægilega mörg grínstig, sem skrifast að einhverju leytinu á að annan þátt sögunnar skortir þann skriðþunga sem myndin hafði í fyrsta leikþætti. Betri persónusköpun hefði getað borið annan þátt uppi, en því miður var ákveðið að pissa í skóinn og fyrrnefnt sig því útkoman. Senurnar á Íslandi eru óvæntar og fyndnar, en Ferrell og félagar virðast halda að þegar út í lokakeppnina er komið dugi að flagga hverri yfirgengilegri eurotrash persónunni á fætur annarri og að það muni skila hlátrasköllum. Það gengur því miður ekki upp, því annan leikþátt skortir ekki aðeins áhugaverða dramatíska framvindu, heldur einnig þá skemmtilegu núansa sem fyrsti hlutinn, sem gerist á Íslandi, bjó yfir. Myndin fer því frá að vera sértæk og óvænt, yfir í að vera almenns eðlis og fyrirsjáanleg. Sem betur fer kemst hún aftur á flot í þriðja þætti og bjargar það henni fyrir bí. Þegar Hannes Óli stal senunni Hannes Óli Ágústsson er þekktur fyrir að stela senum. Will Ferrell er á sömu nótunum og vanalega, enda engin ástæða til að breyta einhverju sem virkar. Frammistaða Rachel McAdams hjálpar myndinni töluvert þegar handritið er sem verst, það virðist alveg sama í hvaða hlutverk hún er sett, ávallt nær hún að skína. Af íslensku leikurnum sem koma fram í myndinni ber Hannes Óli Ágústsson af og er óvæntur senuþjófur. Þessi „Play Ja ja ding dong“-lína hans, er óborganleg, og verður eiginlega fyndnari því oftar sem hann segir hana. Ég væri sannarlega til í að sjá Hannes í fleiri kómískum hlutverkum, enda hefur hann mikla hæfileika sem gamanleikari. Það var fyndið að lesa skrif gagnrýnanda BBC um myndina, en hann virðist hafa móðgast fyrir hönd Íslendinga. Hann misles greinilega þjóðarsál okkar, því það þarf meira til að móðga fólk sem er með jafn bólgið sjálfsálit og íslenska þjóðin. Ef mér leyfist að gerast svo djarfur að tala fyrir hönd þjóðar minnar, þá erum við ekkert móðguð, við værum frekar móðguð ef Ferrell hefði sleppt því að gera myndina, þar sem hann óttaðist það að vera sakaður um að gera grín að okkur. Ég held hreinlega að við séum meira móðguð yfir því að gagnrýnandi BBC telji okkur svo lítil og veikburða að hann þurfi að stökkva okkur til varnar. Við segjum því bara: Þakka þér kærlega Will, þú mátt gera grín að okkur að vild, því við getum tekið því og gott betur. Niðurstaða: Þrjár og hálf stjarna. Heilt yfir er Eurovision Song Contest: Story of Fire Saga meinlaus skemmtun, og skref fram á við hjá Ferrell, sem hefur leikið í of mörgum vitavonlausum kvikmyndum síðustu misserin. Hér að neðan er hægt að heyra Heiðar Sumarliðason ræða um myndina við fyrrum forkeppni Eurovision-þátttakandann Bjartmar Þórðarson og handritshöfundinn Hrafnkel Stefánsson. Stjörnubíó er nú komið á allar helstu hlaðvarpsveitur og margborgar sig að gerast áskrifandi og fá þáttinn beint í símann. Stjörnubíó Mest lesið Kemur út úr skápnum tveimur árum eftir andlát sitt Lífið Enginn þreyir þorrann eins og Áslaug Arna Lífið Bellingham kominn með bandaríska kærustu Lífið Allt í einu orðin mamman sem missti barnið sitt Lífið Guinness-æðið sem gert hefur íslenska djammara að þjófum Lífið Sjónvarpsbarn komið í heiminn Lífið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Menning Stærsta þorrablót landsins Lífið Fleiri fréttir Ómerkilegir þættir um merkilega konu Litríkar umbúðir en lítið innihald Illa bruggaðar Guðaveigar Vínartónleika skorti léttleika: Dansararnir stálu senunni Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Hver man ekki eftir Will Ferrell-myndunum Holmes & Watson, Downhill og The House? Sennilega enginn, enda varla kjaftur sem borgaði sig inn á þær, og gengi Wills Ferrells eftir því ekki verið upp á marga fiska að undanförnu. Hver kvikmynd hans á fætur annarri hefur kolfallið í aðsókn og hans eina velgengni hefur verið í gegnum framhalds- og teiknimyndir. Það er þó eitthvað að rofa til hjá eftirlætis tengdasyni Skandinavíu, því nýjasta mynd hans, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, virðist vera að vekja nokkra kátínu meðal áskrifenda streymisveitunnar Netflix, þar sem hún var frumsýnd fyrir tæpri viku. Það þarf ekki að koma á óvart að Ferrell hafi ákveðið að stökkva á Netflix-vagninn, betur þekktan sem hið nýja beint á vídeó. Þetta er ekki ótroðin slóð hjá gamanmyndaleikurum á niðurleið, því þegar almenningur hætti að nenna út úr húsi til að sjá kvikmyndir Adams Sandlers, gerði hann það sama, fór í mjúkan faðm Netflix. Sjálfsagt hefur Netflix-velgengni Sandlers verið innblástur þessa skrefs Ferrells, og gáfulegt er það, því aðsókn á gamanmyndir hefur heilt yfir minnkað og áhorfendur meira farnir að vilja sjá þær heima í stofu. Það er spurning hvort þetta sé vegna breyttra áhorfsvenja, eða vegna þess að myndirnar hafa orðið stöðugt verri og áhugi fólks á því að borga sig inn á þær þ.a.l. dvínað. Mögulega er þetta beggja blands. Sakna gömlu tímanna Er raunverulega hlegið minna í bíó nú til dags, eða er gagnrýnandinn bara orðinn svona gamall? Mér finnst fátt jafnast á við að sitja í bíósal fullum af áhorfendum og hlæja frá mér allt vit. Ég man hins vegar ekki hvenær ég fór síðast á gamanmynd í bíó þar sem hláturrokurnar komu á færibandi. Sennilega var það þegar ég sá Borat árið 2006. Slíkar hláturveislur hafa undanfarin misseri ekki skilað sér í kvikmyndahús, reyndar ekki heldur á Netflix, ef út í það er farið. Þessar Netflix-myndir frá Sandler, og öðrum svipuðum grínistum, hafa ekki beint kveikt neina elda. Þær fara frá því að vera rétt svo þolanlegar, niður í að vera gjörsamlega óþolandi. Eurovision-mynd Wills Ferrells er hinsvegar það besta sem ég hef séð úr þessari röð Netflix-gamanmynda. Hún er a.m.k. sú eina þeirra sem ég hló töluvert mikið af. Það þarf þó að setja hana í rétt samhengi, því ég veit ekki hvort mér hefði verið jafn skemmt ef ég hefði greitt mig inn á hana í kvikmyndahúsi. Enda væntingastuðullinn almennt hærri þegar maður hefur reddað barnapíu, farið út úr húsi, borgað sig inn og keypt ofsaltað bíópoppið og rándýrt gosið. Mig grunar nefnilega að stjörnugjöfin væri þá eilítið lægri. En ég þurfti hins vegar ekki að fara út úr húsi, og því verð ég auðvitað að dæma hana út frá því sem hún er, Netflix-gamanmynd, og sem slík er hún nokkuð frambærileg. Annars leikþáttar sigið Annar leikþáttur er ekki jafn líflegur og sá fyrsti. Helsti vandi myndarinnar er að hún þjáist af því sem í handritaskrifum er kallað the second act sag, sem á íslensku væri hægt að þýða sem annars leikþáttar sigið. Fyrir þá sem ekki þekkja kvikmyndastrúktúrfræði, er handritum oftast skipt upp í þrjá leikþætti. Leikþáttur eitt er fyrsti fjórðungur myndarinnar, þar sem persónur og aðstæður eru kynntar. Annar leikþáttur er svo helmingur lengdar myndarinnar, og er hinn svokallaði átakaþáttur. Á meðan sá þriðji er fjórðungur lengdarinnar, líkt og sá fyrsti. Algengt vandamál höfunda eru einmitt erfiðleikar tengdir því að fylla þennan annan leikþátt, sem ætti að vera kjötið í sögunni. Annars leikþáttar sigið plagar því miður Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Myndin byrjar af ótrúlegum krafti, og er kynningin á persónum og aðstæðum svo meiriháttar skemmtileg að ég hló upphátt ótal sinnum, en líkt og áður segir, gerist það eiginlega aldrei hjá mér nú til dags. En þó að hann sé fyndinn, þá skortir þennan fyrsta leikþátt að unnið sé í þeim grunnatriðum sem mun þurfa til að keyra annan leikþáttinn áfram. Of oft er komið fram við persónusköpunina sem brandara, en því má líkja við að pissa í skóna, skammgóður vermir. Slík úrvinnsla gengur upp í fyrsta þætti, á meðan verið er að kynna aðstæður og heim sögunnar, en þegar kemur að uppskerunni, í öðrum þætti, er hún því miður rýr. Það eina sem hefði getað bjargað öðrum þætti myndarinnar er ef hann væri fyndnari en raun ber vitni. Hann skorar hins vegar ekki nægilega mörg grínstig, sem skrifast að einhverju leytinu á að annan þátt sögunnar skortir þann skriðþunga sem myndin hafði í fyrsta leikþætti. Betri persónusköpun hefði getað borið annan þátt uppi, en því miður var ákveðið að pissa í skóinn og fyrrnefnt sig því útkoman. Senurnar á Íslandi eru óvæntar og fyndnar, en Ferrell og félagar virðast halda að þegar út í lokakeppnina er komið dugi að flagga hverri yfirgengilegri eurotrash persónunni á fætur annarri og að það muni skila hlátrasköllum. Það gengur því miður ekki upp, því annan leikþátt skortir ekki aðeins áhugaverða dramatíska framvindu, heldur einnig þá skemmtilegu núansa sem fyrsti hlutinn, sem gerist á Íslandi, bjó yfir. Myndin fer því frá að vera sértæk og óvænt, yfir í að vera almenns eðlis og fyrirsjáanleg. Sem betur fer kemst hún aftur á flot í þriðja þætti og bjargar það henni fyrir bí. Þegar Hannes Óli stal senunni Hannes Óli Ágústsson er þekktur fyrir að stela senum. Will Ferrell er á sömu nótunum og vanalega, enda engin ástæða til að breyta einhverju sem virkar. Frammistaða Rachel McAdams hjálpar myndinni töluvert þegar handritið er sem verst, það virðist alveg sama í hvaða hlutverk hún er sett, ávallt nær hún að skína. Af íslensku leikurnum sem koma fram í myndinni ber Hannes Óli Ágústsson af og er óvæntur senuþjófur. Þessi „Play Ja ja ding dong“-lína hans, er óborganleg, og verður eiginlega fyndnari því oftar sem hann segir hana. Ég væri sannarlega til í að sjá Hannes í fleiri kómískum hlutverkum, enda hefur hann mikla hæfileika sem gamanleikari. Það var fyndið að lesa skrif gagnrýnanda BBC um myndina, en hann virðist hafa móðgast fyrir hönd Íslendinga. Hann misles greinilega þjóðarsál okkar, því það þarf meira til að móðga fólk sem er með jafn bólgið sjálfsálit og íslenska þjóðin. Ef mér leyfist að gerast svo djarfur að tala fyrir hönd þjóðar minnar, þá erum við ekkert móðguð, við værum frekar móðguð ef Ferrell hefði sleppt því að gera myndina, þar sem hann óttaðist það að vera sakaður um að gera grín að okkur. Ég held hreinlega að við séum meira móðguð yfir því að gagnrýnandi BBC telji okkur svo lítil og veikburða að hann þurfi að stökkva okkur til varnar. Við segjum því bara: Þakka þér kærlega Will, þú mátt gera grín að okkur að vild, því við getum tekið því og gott betur. Niðurstaða: Þrjár og hálf stjarna. Heilt yfir er Eurovision Song Contest: Story of Fire Saga meinlaus skemmtun, og skref fram á við hjá Ferrell, sem hefur leikið í of mörgum vitavonlausum kvikmyndum síðustu misserin. Hér að neðan er hægt að heyra Heiðar Sumarliðason ræða um myndina við fyrrum forkeppni Eurovision-þátttakandann Bjartmar Þórðarson og handritshöfundinn Hrafnkel Stefánsson. Stjörnubíó er nú komið á allar helstu hlaðvarpsveitur og margborgar sig að gerast áskrifandi og fá þáttinn beint í símann.
Stjörnubíó Mest lesið Kemur út úr skápnum tveimur árum eftir andlát sitt Lífið Enginn þreyir þorrann eins og Áslaug Arna Lífið Bellingham kominn með bandaríska kærustu Lífið Allt í einu orðin mamman sem missti barnið sitt Lífið Guinness-æðið sem gert hefur íslenska djammara að þjófum Lífið Sjónvarpsbarn komið í heiminn Lífið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Menning Stærsta þorrablót landsins Lífið Fleiri fréttir Ómerkilegir þættir um merkilega konu Litríkar umbúðir en lítið innihald Illa bruggaðar Guðaveigar Vínartónleika skorti léttleika: Dansararnir stálu senunni Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira