Sniglar, Bifhjólasamtök Lýðveldisins, hafa efnt til mótmæla við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni, næstkomandi þriðjudag. Mótmælin snúa að hættulegum vegköflum á vegum landsins og verður úrbóta krafist.
Búið er að stofna Facebook-viðburð um mótmælin. Lýsing á efni viðburðarins er á þessa leið:
„Í ljósi atburðar sem kostaði mannslíf, erum við mótorhjólafólk búin að fá nóg. Við krefjumst þess að Vegagerðin á Íslandi muni þegar í stað gera úrbætur á þeim vegköflum sem skapa hafa mikla hættu víðsvegar um landið. Mótmælin verða þögul en sterk, sýnum samstöðu í verki.“
Þó ekki sé sagt berum orðum hvaða atburðar er vísað til, má ætla að um sé að ræða banaslys sem varð á Kjalarnesi í dag, þar sem ökumaður og farþegi bifhjóls létust þegar þeir lentu í árekstri við húsbíl.
Nýtt slitlag var á vegkaflanum sem slysið varð á, og var þar sérstaklega sleipt af þeim sökum. Rannsókn á slysinu stendur nú yfir.