Verðlaunablaðakona á Filippseyjum var í morgun dæmd í fangelsi fyrir meiðyrði og er málið sagt áfall fyrir frjálsa fjölmiðlun í landinu. Dómurinn sakfelldi Maríu Ressa, fréttasíðuna Rappler og fyrrverandi blaðamanninn Reynaldo Santos Jr. fyrir meiðyrði í garð auðugs viðskiptamanns í landinu.
Greinin var skrifuð fyrir átta árum, en fyrningartími í meiðyrðamálum í landinu er fimm ár. Ressa sagði eftir dómsuppkvaðninguna að hún muni berjast áfram fyrir tjáningafrelsi en umfjöllunin um auðmanninn tengdi hann við morð, eiturlyfjasölu, mansal og smygl.
Ressa gæti átt yfir höfði sér sex ára fangelsi en nú er hún laus gegn tryggingu og stendur til að áfrýja til hærra dómstigs. Hinn umdeildi forseti Rodrigo Duterte hefur tjáð sig um málið og hann hafnar því að það snúist um frelsi fjölmiðlunar í landinu, aðeins sé verið að fara eftir lögum.