Erlent

Bandaríkin auka umsvif sín á Grænlandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Nuuk.
Frá Nuuk. Martin Zwick/Getty

Bandarísk stjórnvöld hafa opnað ræðismannsskrifstofu sína í Nuuk á Grænlandi á nýjan leik. Í umfjöllun Politico um málið er opnun skrifstofunnar sögð hluti af viðleitni Bandaríkjamanna til þess að auka umsvif sín á norðurslóðum, og koma á sama tíma í veg fyrir að Rússar og Kínverjar geri slíkt hið sama. Skrifstofan var síðast opin árið 1953.

Sagt frá enduropnuninni í tilkynningu frá Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í gær. Daginn áður hafði bandarískum alríkisstofnunum verið skipað að teikna upp drög að nýjum bandarískum flota ísbrjóta.

Í tilkynningu Pompeo segir að opnun skrifstofunnar endurspegli „skuldbindingu Bandaríkjanna við dýpkun sambands okkar við Grænlendinga, og allt danska konungsveldið. Viðvera okkar í Nuuk mun auka þá velsæld sem við höfum deilt með vinum okkar í Danmörku og á Grænlandi, á sama tíma og við vinnum með öðrum bandamönnum á norðurslóðum og tryggjum stöðugleika og sjálfbærni uppbyggingar á svæðinu.“

Athygli vakti síðasta sumar, þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir áhuga sínum á því að kaupa Grænland. Grænland er sjálfstjórnarsvæði undir Danmörku, og tók Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, fálega í þennan áhuga forsetans á að festa kaup á eyjunni stóru. Það leiddi til þess að Trump aflýsti fundi sínum með ráðherranum.

Í tilkynningu sagðist Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, fagna opnun ræðismannsskrifstofunnar í Nuuk.

„Það er skýrt að aukinn áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi er grænlensku samfélagi til heilla. Við höfum unnið stíft að þessu markmiði og ég er ánægður að nú sjáist áþreifanlegar niðurstöður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×