Arion banki fetar í fótspor hinna tveggja stóru bankanna og breytir inn- og útlánsvöxtum eftir stýrivaxtalækkun Seðlabanka í síðustu viku. Íslandsbanki og Landsbankinn greindu báðir frá því í gær að breytingar yrðu gerðar á vaxtatöflum þeirra.
Vaxtabreytingar Arion banka taka gildi 1. júní næstkomandi. Til að mynda lækka breytilegir óverðtryggðir íbúðalánavextir um 0,50% og hafa þá lækkað um 3,06% frá byrjun árs 2019.
Helstu breytingar á vaxtatöflu Arion banka eru eftirfarandi:
Óverðtryggð íbúðalán
- Óverðtryggðir breytilegir vextir lækka um 0,50% og verða 3,54%
- Fastir 5 ára vextir lækka um 0,60% og verða 4,49%
Verðtryggð íbúðalán
- Verðtryggðir breytilegir vextir lækka um 0,30% og verða 2,74%
- Fastir 5 ára vextir lækka um 0,10% og verða 2,54%
Bílalán
- Vextir bílalána lækka um allt að 0,60%
Kjörvextir
- Almennir óverðtryggðir kjörvextir lækka um 0,40%
- Almennir verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,20%
Annað
- Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga lækka um allt að 0,75%
Innlán
- Breytilegir innlánavextir bankans munu í mörgum tilfellum haldast óbreyttir þrátt fyrir stýrivaxtalækkun en þó munu vextir nokkurra innlánareikninga lækka um 0,05% - 0,75%
Arion banki tekur fram í orðsendingu sinni um málið að fjármögnun banka fylgi ekki nema að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans„ og speglast vaxtaákvarðanir Seðlabankans því ekki með beinum hætti í vaxtakjörum banka,“ segir í orðsendingunni. Fjármögnunin samstandi þannig t.a.m. af af innlánum viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlendri skuldabréfaútgáfu og eiginfjárgerningum.
„Arion banki hefur aftur á móti lagt sig fram um að skila vaxtaákvörðunum Seðlabankans sem best til viðskiptavina sinna og var að auki fyrstur banka til að lækka vexti vegna lækkunar bankaskatts,“ segir Arion.