Viðskipti innlent

Hlut­fall starfandi á vinnu­markaði ekki verið lægra síðan 2003

Atli Ísleifsson skrifar
Atvinnuleysi í landinu mældist sjö prósent í apríl og hafa hlutfall starfandi ekki verið lægra síðan 2003.
Atvinnuleysi í landinu mældist sjö prósent í apríl og hafa hlutfall starfandi ekki verið lægra síðan 2003. Vísir/Vilhelm

Atvinnuleysi í landinu mældist sjö prósent í apríl og hafa hlutfall starfandi ekki verið lægra síðan 2003.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar, en ljóst má vera að áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar á íslenskan vinnumarkað var greinilega farið að gæta í apríl.

Óleiðréttar unnar vinnustundir hafa aldrei mælst færri

Samkvæmt óleiðréttri mælingu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar er áætlað að um 195.000 (± 6.300) manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í apríl 2020. Jafngildi það 75,8 prósent (±2,4) atvinnuþátttöku.

„Af vinnuaflinu er áætlað að um 181.200 (±4.600) manns hafi verið starfandi, en 13.700 (±2.800) án vinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 70,5% (±2,5) á meðan óleiðrétt atvinnuleysi mældist 7,0% (±1,4),“ segir í fréttinni.

Óleiðréttar unnar vinnustundir hafa aldrei mælst færri í sögu samfelldrar vinnumarkaðsrannsóknar frá 2003 eða um 34,8 stundir.

Áhrif Covid-19 greinileg

„Hið sama á við um mælingar á atvinnuþátttöku og hlutfalli starfandi sem hafa aldrei verið lægri síðan 2003.

Þegar á heildina er litið eru áhrif Covid-19 á íslenskan vinnumarkað því greinileg í apríl. Óleiðréttar mælingar benda til þess að fjöldi utan vinnumarkaðar hafi aukist í apríl um leið og atvinnuleysi jókst og unnum stundum fækkaði. Samanburður við apríl 2019 leiðir í ljós að atvinnuleysi hefur aukist um 3 prósentustig milli ára en hlutfall starfandi lækkað um 8,8 prósentustig og atvinnuþátttaka um 6,8 prósentustig,“ segir í fréttinni.

Nánar má lesa um rannsóknina á vef Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×