Íslenski boltinn

Mögulegt að fleiri en hundrað manns geti mætt á fyrstu leiki sumarsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frá leik á Kópavogsvelli síðasta sumar.
Frá leik á Kópavogsvelli síðasta sumar. vísir/bára

Mögulegt er að fleiri en hundrað áhorfendum geti sótt leiki þegar keppni á Íslandsmótinu í fótbolta hefst á ný, væntanlega í júní. Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í Sportinu í dag.

Þann 4. maí verður takmörkunum á samkomubanni vegna kórónuveirunnar aflétt. Næsta skref verður svo væntanlega tekið 3-4 vikum seinna. 

„Eins og við horfum á þetta er næsta skref, ef allt gengur vel, hundrað manns. Þá þýðir það að það verða ekki fleiri en hundrað á sama svæði á sama leik,“ sagði Víðir. 

Hann segir að það væri þó hægt að hólfa stúkurnar á vellinum niður til að fleiri áhorfendur geti mætt á leikina.

„Alveg eins og við höfum séð verslanir leysa þetta, eins og IKEA sem bjó til hólf fyrir hundrað manns. Það var ekki sameiginleg notkun á neinu á milli hólfa. Maður getur ímyndað sér að hægt sé að skipta stúku í tvö hundrað manna svæði,“ sagði Víðir.

„Tökum Breiðablik sem dæmi. Þar eru tvær stúkur. Kannski geta verið þrjú hundrað manna svæði þar. Þetta gengur út á það að menn séu ekki með sameiginlegan inngang eða notkun á sjoppum og snyrtingu. Varðandi tveggja metra regluna þarf svæðið að vera nógu stórt til að fólk geti dreift sér skynsamlega um það,“ bætti Víðir við.

Klippa: Sportið í dag - Víðir um áhorfendafjölda

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×