Erlent

Öll héraðsþing Rússlands styðja breytingar sem leyfa Pútín að sitja áfram

Kjartan Kjartansson skrifar
Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá þyrfti Vladímír Pútín að stíga til hliðar árið 2024. Breytingarnar sem fara nú með hraði í gegnum rússneska stjórnkerfið gerðu honum kleift að sitja áfram sem forseti í tólf ár eftir það.
Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá þyrfti Vladímír Pútín að stíga til hliðar árið 2024. Breytingarnar sem fara nú með hraði í gegnum rússneska stjórnkerfið gerðu honum kleift að sitja áfram sem forseti í tólf ár eftir það. Vísir/EPA

Tillaga um að stjórnarskrá Rússlands verði breytt þannig að Vladímír Pútín geti setið áfram sem forseti þegar yfirstandandi kjörtímabili hans lýkur eftir fjögur ár var samþykkt á öllum 85 héraðsþingum landsins. Með breytingunum gæti Pútín setið áfram í embætti til 2036.

Báðar deildir rússneska þingsins hafa þegar samþykkt tillöguna. Aldrei Klishas, þingmaður í flokki Pútín, fullyrðir að hvert einasta héraðsþing landsins hafi veitt henni blessun sína í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Næst gengur frumvarpið til stjórnlagadómstóls Rússlands áður en þær verða lagðar fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl.

Pútín, sem er 67 ára gamall, lagði óvænt fram tillögur um meiriháttar breytingar á stjórnskipan Rússlands í janúar. Gagnrýnendur hans hafa fullyrt að þeim sé ætlað að tryggja honum áframhaldandi völd en samkvæmt núgildandi stjórnarskrá mætti hann ekki bjóða sig fram aftur þegar kjörtímabili hans lýkur árið 2024. Stjórnvöld í Kreml halda því aftur á móti fram að með breytingum séu völd færð frá forsetaembættinu til þingsins.

Nú þegar hefur Pútín setið á forsetastóli í tvo áratugi og er þaulsetnasti leiðtogi Rússlands frá því að alræðisherrann Jósef Stalín stýrði Sovétríkjunum sálugu með járnhnefa.


Tengdar fréttir

Flokkur Pútín vill breyta lögum svo hann geti setið áfram

Ákvæðum rússnesku stjórnarskrárinnar gæti verið breytt á næstunni til að gera Vladímír Pútín kleift að sitja áfram sem forseti. Hann hefur þegar verið við völd í tuttugu ár, lengur en nokkur annar leiðtogi Rússlands frá því að harðstjórinn Jósef Stalín var og hét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×