Erlent

Sophie Trudeau smituð og eiginmaðurinn í sóttkví

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Trudeau-hjónin á kosningafundi í Montreal í fyrra.
Trudeau-hjónin á kosningafundi í Montreal í fyrra. getty/bloomberg

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er kominn í sóttkví eftir að eiginkona hans smitaðist af kórónuveirunni. Hann er þó sjálfur ekki talinn smitaður. Sophie Gregoire Trudeau hafði verið á ferðalagi um Bretland og kom aftur heim til Kanada á miðvikudag, með væg flensueinkenni í farteskinu.

Talsmaður forsætisráðherrans segir hjónin þó við góða heilsu en að þau fari eftir öllum ráðleggingum og verði í sjálfskipaðri sóttkví í tvær vikur. Læknar forsætisráðherrans segi honum jafnframt að honum sé óhætt að sinna störfum sínum úr sóttkvínni, svo lengi sem hann fylgist vel með heilsunni og sýni engin smiteinkenni.

Þar að auki þurfi fólk sem hefur umgengist forsætisráðherrann að undanförnu ekki að örvænta, litlar sem engar líkur eru taldar á því að hann hafi smitað einhvern í kringum sig.

Sophie Trudeau sendi frá sér stutta tilkynningu í gærkvöldi þar sem hún þakkar öllum fyrir sýndan stuðning. Þó svo að hún sé slöpp kveinkar hún sér ekki, sem forsætisráðherrafrú sé hún eflaust í umtalsvert betri stöðu en margir landsmenn hennar sem jafnvel glíma við undirliggjandi heilsufarsvandamál. 

„Við munum komast yfir þetta saman. Miðlið staðreyndunum áfram og hugið að heilsunni af alvöru,“ skrifar Sophie Trudaeu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×