Stjórn Icelandair stefnir að því ljúka samningum um aðkomu stjórnvalda að endurreisn félagsins fyrir miðjan næsta mánuð. Þá liggi staða fyrirhugaðra kaupa félagsins á tíu Max flugvélum sem Boeing á eftir að afhenda fyrir áður en hlutfjárútboð hefjist í lok júní.

Vel var mætt á þennan sögulega hlutahafafund sem stóð á bakvið rúmlega áttatíu prósent hlutafjár í félaginu, sem afsalaði sér forkaupsrétti á nýju hlutafé upp á allt að 200 milljónir dollara. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir stefnt að því að ljúka samningum við stjórnvöld áður en landið verir opnað á ný fyrir erlendum ferðamönnum.
„Við erum í viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, við lánadrottna okkar. Þannig að það eru margir þræðir í þessu verkefni sem við vinnum að. Markmiðið er að klára þá alla í rauninni fyrir 15. júní og hefja þá sölu hlutafjár,“ segir Bogi Nils.
Reiknað sé með að henni verði lokið fyrir 2. júlí. Nú komi sér vel að eiga skuldlítin eldri flugflota sem kosti lítið að hafa verlefnalítinn. Boeing á eftir að afhenda Icelandair tíu Max flugvélar sem hafa verið í flugbanni í um ár. Niðurstaða í þeim málum eigi að liggja fyrir áður en hlutafjárútboð hefst.
Bæði tíðni og áfangastaðir; mun þeim fækka um leið og þið komist af stað núna í sumar og jafnvel á næsta ári og þarnæsta?

„Leiðarkerfið verður byggt hægt upp. Þetta fer ekki allt í gang í einu. Markaðir munu opna á mismunandi tímum og með mismunandi hætti. Þannig að þetta mun gerast svona smám saman. En markmið okkar er og við höfum alla burði, alla innviði og sveigjanleika til að byggja leiðarkerfið upp aftur eins og það var þegar það var sem stærst,“ segir Bogi Nils.
En stjórnin miði við að félagið geti lifað af verstu sviðsmynd um þróun farþegafjölda á næstu árum og nái ekki sama fjölda og í fyrra fyrr en árið 2024.
„Við búum félagið undir að þetta geti tekið þennan tíma. En við erum alveg tilbúin til að gera þetta miklu hraðar. Allir innviðir eru til staðar til þess,“ segir forstjórinn.
Mikil óvissa ríkir um opnun umheimsins fyrir ferðamönnum og gæti allt eins teygst úr einangrun markaðssvæða.
„Við erum að sýna fram á að þótt þetta verði svona eins og þú ert að lýsa, að hlutirnir fari ekkert í gang fyrr en í byrjun næsta árs eða í mars á næsta ári, verði félagið samt álitlegur fjárfestingarkostur. Og ef þetta gerist fyrr er það í raun bónus fyrir fjárfesta,“ segir Bogi Nils Bogason.