Fótbolti

Setur kröfur á þá leikmenn sem Man. United kaupir í sumar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bruno Fernandes hefur gjörbreytt liði Manchester United.
Bruno Fernandes hefur gjörbreytt liði Manchester United. vísir/getty

Bruno Fernandes hefur komið eins og stormsveipur inn í lið Manchester United frá því að hann gekk í raðir félagsins í janúar. Hann setur þá kröfu á leikmenn sem koma til félagsins í sumar að þeir séu alvöru sigurvegarar, eins og hann.

Fernandes sló í gegn með United á upphafsmánuðunum eftir að hafa komið frá Sporting í janúar og var meðal annars valinn leikmaður mánaðarins í febrúar áður en fótboltinn var stöðvaður vegna kórónuveirunar.

Fernandez er mikill sigurvegari og fór ekkert leynt með það í viðtali sem birtist við hann á heimasíðu United í gær þar sem stuðningsmenn fengu að spyrja hann spjörunum úr.

„Ég vil vinna allt. Ég er hungraður í að vinna allt. Ég kom til Manchester til þess að vinna titla. Deildina, Meistaradeildina, allt. Við vitum hvaða gæði búa í Manchester. Við erum með ungt lið, unga leikmenn en við erum með mikil gæði,“ sagði Portúgalinn.

„Það skiptir ekki máli að við erum ungir og aðrir hafa meiri reynslu en við því við erum einnig með eldri leikmenn sem geta hjálpað þeim yngri. Ég veit ekki hvað gerist fyrir næstu leiktíð en Manchester er stórt félag og reglulega kaupa þeir leikmenn. Þeir eru stórt félag og hingað vilja allir koma.“

„Við erum stórt lið en allir sem koma hingað þurfa að koma hingað til þess að vinna. Bara með hugann við það að vinna. Ég vil fólk sem er hungrað í að vinna titla og vinna allt. Ég get skynjað það í hópnum að allir vilja vinna,“ sagði Portúgalinn.

Man. United var á miklu skriði þegar enski boltinn var settur á ís en þeir unnu átta af ellefu leikjunum eftir að Bruno kom til félagsins og voru þeir komnir upp í 5. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×