Fótbolti

Gerrard segir Liverpool-liðið skrímsli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Steven Gerrard átti frábæran feril með Liverpool.
Steven Gerrard átti frábæran feril með Liverpool. vísir/getty

Liverpool-goðsögnin Steven Gerrard hlakkar til að sjá þá rauðklæddu verða betri og betri með hverju árinu og segir liðið í ár andlega sterkara en leikmannahópurinn var þegar hann sjálfur spilaði með félaginu.

Gerrard, sem er nú stjóri Rangers í Skotlandi, ræddi við Sky Sports í gær en hann spilaði með ansi mörgum leikmönnum hjá Liverpool á tíma sínum hjá félaginu enda lék hann með aðalliði félagsins í sautján ár og á yfir 500 leiki fyrir félagið.

„Þeir hafa verið stórkostlegir í nokkur ár núna. Á síðasta ári voru þeir bara óheppnir að verða ekki meistarar,“ sagði Liverpool-goðsögnin.

„Það réðst á því hvernig Manchester City stóð sig en Liverpool virðast bara verða sterkari og betri með hverju árinu,“ sagði Gerrard um síðasta tímabil hjá Liverpool. Þeir hafa aldrei fengið fleiri stig en töpuðu samt sem áður titilbaráttunni fyrir mögnuðu liði Manchester City.

„Það er eitt sem hefur heillað mig, samanborið við það þegar ég var að spila, er að þeir eru rosalegan andlegan styrk. Við vorum með rosa sterka atvinnumenn og leikmenn sem voru sterkir andlega en þetta virðist vera núna þannig að allir leikmenn frá 1 til 26; þeir eru skrímsli og eru allir á sömu blaðsíðunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×