Erlent

Flokkur Pútín vill breyta lögum svo hann geti setið áfram

Kjartan Kjartansson skrifar
Vladímír Pútín Rússlandsforseta virðir fyrir sér fána frá sovéttímanum með andlitum Vladímírs Lenín og Jósefs Stalín. Enginn hefur ríkt lengur í Rússland en Pútín frá því að Stalín lést árið 1953.
Vladímír Pútín Rússlandsforseta virðir fyrir sér fána frá sovéttímanum með andlitum Vladímírs Lenín og Jósefs Stalín. Enginn hefur ríkt lengur í Rússland en Pútín frá því að Stalín lést árið 1953. AP/Alexei Nikolsky/Spútnik

Sameinað Rússland, flokkur Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, styður tillögu um breytingu á stjórnarskrá sem gerði Pútín kleift að bjóða sig fram til forseta aftur árið 2024. Pútín er ekki kjörgengur þá samkvæmt núgildandi stjórnarskrá Rússlands.

Umfangsmiklar breytingar á stjórnskipan Rússlands sem Pútín lagði óvænt fram í janúar eru af mörgum taldar eiga að tryggja honum áframhaldandi völd eftir að fjórða kjörtímabili hans sem forseta lýkur eftir fjögur ár.

Þingmenn Sameinaðs Rússlands lögðu til í dag að stjórnarskránni yrði breytt þannig að Pútín fengi að byrja upp á nýtt með hreinan skjöld og bjóða sig fram aftur til forseta líkt og það væri í fyrsta skipti, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Dúman, neðri deild þingsins, er þegar búin að samþykkja tillöguna.

Pútín, sem hefur stýrt Rússlandi með harðri hendi í tuttugu ár og er þaulsetnasti leiðtogi landsins frá tíð harðstjórans Jósefs Stalín, segist styðja tillögu flokksins. Hann sé andsnúinn því að afnema ákvæði um hámarksembættissetu en fylgjandi því að endurskoða hversu lengi menn mega gegna forsetaembættinu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Áður hafði Pútín gert lítið úr möguleikanum á að hann gæti setið áfram sem forseti eftir að núverandi kjörtímabili lýkur. Á föstudag sagði hann verkamönnum og aðgerðasinnum í Ivanovo að hann vildi ekki afnema ákvæði sem takmarka hversu lengi menn geta setið á forsetastóli. Það væri þó ekki vegna þess að hann óttaðist sjálfan sig eða að hann gæti „gengið af göflunum“.

„Stöðugleiki, yfirveguð þróun landsins kann að vera mikilvæg núna en seinna þegar landið verður sjálfsöruggara og auðugra verður sannarlega þörf á því að tryggja mannabreytingar í ríkisstjórninni,“ sagði Pútín.

Stjórnarskrárbreytingarnar eru enn til umræðu á rússneska þinginu en til stendur að leggja þær í þjóðaratkvæðagreiðslu 22. apríl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×