Sport

Alfreð: Mjög sérstakt að byrja fyrir framan tóma stúku

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alfreð stýrir þýska liðinu í fyrsta sinn í lok leiktíðar.
Alfreð stýrir þýska liðinu í fyrsta sinn í lok leiktíðar. vísir/getty

Á föstudaginn mun Alfreð Gíslason stýra þýska landsliðinu í fyrsta skipti á ferlinum og það mun hann gera á sínum gamla heimavelli í Magdeburg.

Þá spilar þýska liðið vináttulandsleik við Holland sem Erlingur Birgir Richardsson þjálfar. Líkur eru á því að leikurinn fari fram án áhorfenda vegna kórónuveirunnar.

„Þetta er auðvitað mikilvægur leikur í undirbúningi okkar fyrir umspil um Ólympíusæti og við vorum að vonast eftir því að spila fyrir framan fulla höll því stuðningur skiptir okkur máli,“ sagði Alfreð.

„Það væri mjög sérstakt að stýra þýska landsliðinu í fyrsta skiptið fyrir framan tóma stúku.“

Það eru yfirvöld í Magdeburg sem taka þessa ákvörðun en í gær var sett sú regla að ekki mættu mæta fleiri en 1.000 áhorfendur á leiki í héraðinu. Sú ákvörðun stendur þar til annað verður ákveðið en Alfreð vill eðlilega fá fullt hús í þessum merka leik á sínum ferli.

Þýskaland er í riðli með Svíum, Slóvenum og Alsír í umspilinu en tvær þjóðir komast áfram á ÓL í Tókýó. Riðillinn verður spilaður í Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×