Fótbolti

Pogba hélt með Arsenal á sínum yngri árum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba í síðasta leiknum sem hann lék með United en það var 26. desember. Síðan þá hefur hann verið meiddur.
Pogba í síðasta leiknum sem hann lék með United en það var 26. desember. Síðan þá hefur hann verið meiddur. vísir/getty

Paul Pogba greindi frá því í viðtali á dögunum að hann hafi haldið með Arsenal á sínum yngri árum. Það hafi verið vegna þess að landi hans, Thierry Henry, spilaði með liðinu þegar Pogba var ungur og hélt Pogba mikið upp á Henry.

Arsenal hafði marga Frakka á sínum snærum þegar Pogba var ungur að árum, til að mynda Thierry Henry og Patrick Viera, en það var ein ástæða þess að Pogba byrjaði að fylgjast með Arsenal.

„Ég verð að vera hreinskilinn. Í upphafi var ég stuðningsmaður Arsenal útaf öllum frönsku leikmönnunum. Ég og annar bróðir minn héldum með Arsenal en sá þriðji hélt með Manchester United,“ sagði Pogba í samtali við hlaðvarð Manchester United.

„Ég elskaði Henry og útaf honum þá varð ég stuðningsmaður Arsenal. Síðan breytti ég til og fór til bróður míns. Ekki meira Arsenal og varð stuðningsmaður United.“

Pogba átti margar fyrirmyndir á sínum yngir árum og Henry var auðvitað ein af þeim. „Ronaldinho, Ronaldo, Zidane, Henry, Cisse og Kaka,“ sagði Frakkinn þegar hann var spurður hverjar hafi verið hans helstu fyrirmyndir.

Franski miðjumaðurinn hefur verið mikið orðaður burt frá United undanfarnar vikur en hann hefur bæði verið orðaður við Real Madrid og Juventus. Hann rennur út af samningi sumarið 2021 en United keypti hann á 89 milljónir punda. Hann hefur ekki leikið síðan á öðrum degi jóla vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×