Innlent

Kona úr bakvarðasveit handtekin vegna gruns um skjalafals og lyfjastuld

Sylvía Hall skrifar
Konan hafði verið í bakvarðasveitinni sem sjúkraliði.
Konan hafði verið í bakvarðasveitinni sem sjúkraliði. Vilhelm Gunnarsson

Lögreglan handtók konu úr bakvarðasveit heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem starfað hefur í vikunni á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Konan er grunuð um að hafa falsað skjöl um menntun og starfsleyfi sem og lyfjastuld.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Konan var í bakvarðasveit sem sjúkraliði en upp komst um málið í gærkvöldi eftir að ábendingar bárust um að ekki væri allt með felldu. Að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, var gripið strax til aðgerða vegna málsins og það tilkynnt til lögreglu.

„Þetta er auðvitað hörmulegt atvik. Okkur fannst við vera að ná vopnum okkar en svo kemur þetta ofan í allt sem á undan er gengið. Skjölum um menntun og starfsreynslu var safnað þegar bakvarðasveitin var sett saman, en við höfum því miður ástæðu til að halda að hún hafi framvísað fölsuðum gögnum,“ er haft eftir Gylfa í tilkynningu. 

Konan var færð í fangageymslur á Ísafirði og var tekið úr henni sýni vegna mögulegs Covid-19 smits, en ástandið á hjúkrunarheimilinu er alvarlegt eftir að hópsýking blossaði upp. Einn heimilismaður hjúkrunarheimilisins lést af völdum veirunnar.

Þá er unnið að því að tryggja að starfsemi Bergs raskist ekki og að öruggt sé að aðrir meðlimir bakvarðasveitarinnar starfi áfram. Bakvarðasveitinni verður boðin áfallahjálp vegna málsins.

Á sjötta tug hafa greinst með veiruna á Vestfjörðum. Þar af eru um þrjátíu í Bolungarvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×