Innlent

Veifuðu „skammbyssu“ að vegfarendum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan þurfti einnig að hafa afskipti af mjög ölvuðum manni á fertugsaldri í miðbænum.
Lögreglan þurfti einnig að hafa afskipti af mjög ölvuðum manni á fertugsaldri í miðbænum. Vísir/Tumi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í gær nokkrar tilkynningar um að fólk væri að keyra um Hlíðarnar og Garðabæ með skammbyssu. Þau væru að veifa byssunni og beina henni að vegfarendum.

Bíll þeirra var stöðvaður af lögregluþjónum skömmu eftir að tilkynningarnar bárust. Um var að ræða mann og konu á þrítugsaldri sem viðurkenndu athæfið og sögðust hafa gert þetta í gríni. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar en þar segir ekkert um hvort að um loftbyssu hafi verið að ræða eða alvöru byssu.

Þá barst tilkynning á sjöunda tímanum um ungan mann sem gekk eftir miðri akbraut í austurborginni. Sá var í mjög annarlegu ástandi og hlýddu ekki fyrirmælum lögreglu. Þar að auki veitti hann mótspyrnu við handtöku, samkvæmt dagbók lögreglu, og var hann færður í fangageymslu.

Alls var 71 mál bókað hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá fimm í gærkvöldi og til fimm í morgun. Þar af voru fjórir ökumenn grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

Þá voru skráningarmerki fjarlægð af 55 bílum sem voru ótryggðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×