Erlent

Smituðum fjölgar hratt í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar hafa gefið verulega í varðandi skimun fyrir veirunni og segja embættismenn það skýra þessa miklu hækkun að einhverju leyti.
Rússar hafa gefið verulega í varðandi skimun fyrir veirunni og segja embættismenn það skýra þessa miklu hækkun að einhverju leyti. EPA/MAXIM SHIPENKOV

Staðfestum tilfellum af Covid-19 fjölgaði um 10.699 á milli daga í Rússlandi. Smituðum hefur nú fjölgað um meira en tíu þúsund sex daga í röð. Á fimmtudaginn hafði hækkunin þó verið 11.231. Rússar hafa gefið verulega í varðandi skimun fyrir veirunni og segja embættismenn það skýra þessa miklu hækkun að einhverju leyti.

Í heildina hafa 187.859 greinst með veiruna þar í landi. Minnst 1.723 hafa dáið og 26.608 hafa náð sér. Minnst 98 dóu á milli daga.

Samkvæmt TASS fréttaveitunni, sem er í eigu ríkisins, hafa 48,9 prósent smitaðra ekki sýnt einkenni Covid-19.

Af þessum rúmu tíu þúsund nýju smitum greindust 5.846 í Moskvu. Heildarfjöldi tilfella þar er nú 98.522. Borgarstjóri Moskvu tilkynnti í gær að útgöngubann þar yrði framlengt til 31. maí. Íbúum borgarinnar er einungis leyft að yfirgefa heimili sín til að kaupa nauðsynjar, ganga með hunda, eða fara til vinnu sem skilgreind er sem mikilvæg.

Moscow Times segir að Bandaríkin séu eina ríkið þar sem smituðum fjölgar hraðar og Rússland er nú í fimmta sæti ríkja varðandi fjölda smitaðra.

Covid-19 hefur greinst í 82 héröðum Rússlands.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra Rússlands með Covid-19

Forsætisráðherra Rússlands þarf að draga sig í hlé vegna Covid-19 sýkingar. Andrey Belousov mun gegna forsætisráðherraembættinu í fjarveru Mishustins.

Metfjöldi nýrra smita í Rússlandi

Smituðum í Rússlandi hefur aldrei fjölgað meira á milli daga en í dag. Alls voru staðfest 6.411 tilfelli af Covid-19 smitum á milli daga og í heildina hafa minnst 93.558 smitast í þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×