Lögreglan segist hafa haft afskipti af erlendum ferðamann sem hafði lagt til hvílu á gangstétt við Laugaveg í miðborg Reykjavíkur. Þegar lögreglumenn stugguðu við manninum á ellefta tímanum og bentu honum á óheimilt væri að sofa á gangstéttum borgarinnar „þá færði hann sig nokkra metra og hélt áfram fyrri iðju,“ eins og lögreglan orðar það í dagbók sinni.
Þó svo að erlendir ferðamenn séu sjaldséðir þessa dagana fékk þessi enga sérstaka meðferð heldur var hann handtekinn og fluttur í fangageymslu. Þar mun hann dvelja þangað til að hann hefur sofið úr sér ölvunina.
Þá segist lögreglan jafnframt hafa handtekið þrjá karlmenn í Hafnarfirði vegna gruns um að þeir væru þar að framleiða fíkniefni. Jafnframt eru þeir sagðir hafa haft fíkniefni í fórum sínum og brotið vopnalög. Þeim var þó sleppt að lokinni skýrslutöku.
Drengur sem féll á andlitið eftir að hafa rennt sér á hlaupahjóli er jafnframt sagður hafa kallað eftir aðstoð lögreglunnar. Vegna ungs aldurs var móðir hans boðuð á vettvang slyssins og fylgdi hún honum í sjúkrabíl á slysadeild, þar sem gert var að áverkum sem drengurinn hafði hlotið á kinn og munni.