Kindurnar á bænum Strönd í Rangárvallasýslu eru allar í jólaskapi enda búið að skreyta fjárhúsið hjá þeim hátt og lágt. Á milli þess sem þær éta tugguna sína þá geta þær hlustað á jólalög.
Á bænum Strönd, sem er við afleggjarann þegar ekið er niður að Njálsbúð í Rangárþingi eystra þar sem sveitaböllinn voru alltaf haldin, búa frændsystkinin Jón Gunnar Karlsson og Margrét Jónsdóttir með á annað hundrað fjár, auk þess að vera með nokkur hross. Margrét er mikið jólabarn og skreytir alltaf fjárhúsið um jólin, sem er einn af jólasiðum hennar.
En hefur þetta alltaf verið svona?
„Já, síðan 1994 í þessu fjárhúsi. Kindurnar hafa gaman af þessu eins og ég. Síðan geng ég hér upp að altari og trekki bjölluna og þá glymja allar bjöllurnar í fjárhúsinu“, segir Margrét.
Margrét og Gunnar eru með ferhyrnd og brúskfé í fjárhúsinu sínu og þau eru með marga liti á fénu.
„Við höfum alltaf haldið í ýmsa liti því það er nauðsynlegt að halda í fjölbreytileikann, ekki hafa allt hvítt. Það er mjög gaman að vera sauðfjárbóndi en ég eignaðist mitt fyrsta lamb þegar ég var 10 ára 1964“, bætir Margrét við.

Kindurnar á Strönd eru mjög fallegar enda vel upp aldar og hugsað vel um þær. Fengitímanum er lokið og nú er bara að bíða eftir að fyrstu lömbin komi í heiminn með vorinu
En er nauðsynlegt að hugsa sérstaklega vel um skepnur um jólin?
„Já, bara alla daga ársins að hugsa vel um dýrin, fylgjast með og líta eftir þeim, ekkert frekar um jólin“, segir Margrét.
