Í dag jóladag eru flestar verslanir lokaðar og önnur þjónusta sömuleiðis. Svo gott sem allar helstu matvöruverslanir, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni eru lokaðar í dag. Aftur á móti er opið í Krónunni í Vík í Mýrdal til klukkan fjögur, sem er eina verslun Krónunnar sem er opin í dag.
Allar verslanir Bónus, Hagkaupa og Nettó, svo dæmi séu tekin, eru lokaðar í dag samkvæmt upplýsingum á heimasíðum verslananna og einnig er lokað í Melabúðinni. Verslanir Krambúðarinnar eru þó margar opnar í dag, þ.e. í Lönguhlíð, Skólavörðustíg, Laugarlæk, Hjarðarhaga, Grímsbæ, Hringbraut, Tjarnarbraut, Borgarbraut og Selfossi eru opnar til sex í dag. Þá er opið í versluninni Rangá í Skipasundi til klukkan 17.
Allflestar verslanir bensínstöðva eru einnig lokaðar en opið er til tvö á N1 í Borgarnesi og á Hvolsvelli.
Flest apótek eru lokuð í dag en opið er í Lyfju Lágmúla og Smáratorgi og í Apótekaranum í Austurveri til miðnættis. Læknavaktin er opin til 23:30 í kvöld líkt og flesta helgidaga og almenna frídaga. Þá ekur Strætó samkvæmt sunnudagsáætlun í dag.
Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði verður opið í dag frá ellefu til tvö, en þetta er í fyrsta sinn í vetur sem skíðasvæðið er opið. Hlíðarfjall á Akureyri er opið frá tólf til fjögur en lokað er í Bláfjöllum. Sundlaugar landsins eru jafnframt svo gott sem allar lokaðar í dag.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Flestar verslanir lokaðar í dag
