Innlent

Byrlað af maka sínum eða neyddar til þátttöku í hópkynlífi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Nokkur dæmi eru um að konur hafi leitað til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, á árinu eftir að hafa verið byrlað af maka sínum eða þær þvingaðar í kynferðisathafnir af maka sínum með þriðja aðila. Aldrei hafa fleiri leitað til Bjarkarhlíðar en í ár og segir verkefnastýra að ofbeldi í nánum samböndum sé grófara en áður.

Árið 2019 hafa 557 manns leitað í fyrsta sinn til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis en málin voru 479 árið 2018.

Körlum sem leita til Bjarkarhlíðar hefur farið fjölgandi. Á stofnárinu árið 2017 voru þeir 9% þolenda en í fyrra var hlutfallið 13%. Í ár hafa 98 karlar leitað til Bjarkarhlíðar og eru 18 % þolenda.

„Það má segja að það sé helmingsaukning á að þeir leiti til okkar í ár,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastýra Bjarkarhlíðar.

Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastýra Bjarkarhlíðar.Vísir/baldur

Til stendur að koma til móts við karlahópinn með aukinni ráðgjöf og hópastarfi. Ragna Björg segir að flestir komi vegna heimilisofbeldis.

„Birtingarmyndirnar eru fjárhagslegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi,“ segir Ragna Björg. 

Konur eru þó í miklum meirihluta þeirra sem leita til Bjarkarhlíðar eða og hafa 457 konur leitað þangað í fyrsta sinn ár, langflestar vegna heimilisofbeldis. Ragna Björg segir að ofbeldið sé alltaf að verða grófara.

„Við sjáum byrlanir í nánum samböndum. Svo sjáum við dæmi þar sem konur eru þvingaðar í kynferðisathafnir út fyrir hjónabandið þar sem þeim er jafnvel líka byrlað eða þær deyfðar á einhvern hátt til að koma fram vilja ofbeldismannsins,“ segir Ragna Björg.

Nokkur mál af þessum toga hafi komið upp á árinu. „Þetta er ekki einstakt.“ Hún telur að klámvæðing hafi áhrif á alvarleika brotanna.

„Og bara þetta virðingarleysi gagnvart konum,“ segir Ragna Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×