Karlmaður sem vistaður var í búsetuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að starfsmanni í búsetukjarnanum.
Í ákæru á hendur manninum kemur fram að karlmaðurinn hafi að kvöldi föstudagsins 13. apríl í íbúð í höfuðborginni þar sem hann var vistaður á vegum borgarinnar tekið karlmann sem starfaði við umönnun ákærða hálstaki.
Herti ákærði að hálsi starfsmannsins þar til hann missti meðvitund og hlaut mar á hálsi og punktblæðingar á augnlokum og á vinstra auga.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar en til vara að honum verði gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun eða öðrum öryggisráðstöfunum.
Þá krefst starfsmaðurinn einnar milljónar króna í miskabætur vegna árásarinnar. Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur og verður þingfest á morgun.
