Tónlistarmaðurinn og matreiðslumeistarinn Ásgeir Magnús Sæmundsson, betur þekktur sem Geiri Sæm, lést á heimili sínu í Reykjavík þann 15. desember. Frá þessu er greint í tilkynningu frá fjölskyldu hans og ástvinum. Banamein Geira var krabbamein.
Ásgeir fæddist í Reykjavík 29. nóvember 1964. Hann stundaði tónlistarnám og byrjaði ungur að semja tónlist og eftir hann liggja fjórar hljómplötur sem hann gaf út ásamt félögum sínum í Pax Vobis og Hunangstunglinu sem og fjöldinn allur af óútgefnu efni.
Fjöldinn allur af tónlistar- og fjölmiðlafólki minnist Geira eftir að fréttist af andláti hans.
Geiri söng, lék á gítar og hljómborð og samdi fjölda laga og texta. Þekktust eru lögin Sterinn, Er ást í tunglinu, Rauður bíll og Froðan sem hefur tvisvar komið út, fyrst í flutningi Geira Sæm og Hunangstunglsins árið 1988 og svo í flutningi Ragga Bjarna og Jóns Jónssonar árið 2012.
Það lag var einmitt eitt af lögunum sem vakin var sérstök athygli á í tilefni af degi íslenskrar tónlistar. Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá Geira flytja lagið á Bylgjunni árið 2013.
Síðast gaf Geiri Sæm út lag á 55 ára afmæli sínu nú í nóvember, lagið Sooner than later.
Eftirlifandi eiginkona Ásgeirs er Anna Sigrún Auðunsdóttir og dætur þeirra eru Sonja og Ásgerður.
Tónlistarmaðurinn Geiri Sæm látinn

Tengdar fréttir

Tónlistargeirinn í sárum vegna fráfalls Geira Sæm
Geira Sæm minnst sem einstaks ljúfmennis og góðs tónlistarmanns.