Innlent

Olían var borin til grafar úti á Granda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jarðarför olíunnar fór fram á Granda síðdegis í gær á vegum grasrótarhóps Landverndar. Gjörningurinn er einn af mörgum til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum og eru kröfurnar olíulaust Ísland árið 2035, að innflutningi á bensín og díselbifreiðum verði hætt 2023 og á vinnuvélum og tækjum árið 2025, auk þess sem það ár verði almenningssamgöngur alveg knúnar af hreinum orkugjöfum.

Davíð Þór Jónsson prestur leiddi jarðaförina og fór með minningarorð. Um var að ræða táknrænan og friðsamlegan gjörning með aðstoð kórmeðlima héðan og þaðan. 

„Á Íslandi er auðvelt að útfasa jarðefnaeldsneyti en stjórnvöld þurfa að stiga fram af miklu meiri krafti. Nauðsynlegt er að flýta orkuskiptum í vegasamgöngum, sem er bæði vel framkvæmanlegt og nauðsynlegt miðað við nýjustu tölur um losun koltvísýrings í vegasamgöngum á Íslandi, sem fer hækkandi þrátt fyrir spár,“ segir í tilkynningu frá hópnum.

Kröfur hópsins eru þessar:

Ø 2020 Auka fjármagn í nýsköpun og þróun fyrir notkun hreinna orkugjafa í flugsamgöngum í samstarfi við grannþjóðir

Ø 2023 Banna innflutning á bensín og díselbílum

Ø 2025 Banna innflutning vinnuvélum og tækjum sem ekki ganga fyrir hreinum orkugjöfum

Ø 2025 Öll opinber framkvæmdasvæði noti eingöngu tæki sem ganga fyrir hreynum orkugjöfum

Ø 2025 Jarðefnaeldsneytislausar almenningssamgöngur á landi

Ø 2030 Markmið um fyrsta raffarþegaflug innanlands

Ø 2030 Jarðefnaeldsneytislausar landssamgöngur

Ø 2030 Jarðefnaeldsneytislausar sjósamgöngur

Ø 2035 Jarðefnaeldsneytislaus fiskiskipafloti

Ø 2035 Markmið um rafvæðingu millilandaflugs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×