Handbolti

Ágúst: Fram er besta liðið eins og staðan er í dag

Sæbjörn Þór Steinbergsson skrifar
Ágúst var brattur þrátt fyrir tap í dag.
Ágúst var brattur þrátt fyrir tap í dag. vísir/bára
„Ég er fyrst og fremst svekktur með fyrstu fimmtán- tuttugu mínúturnar í seinni hálfleiknum,” sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir tap gegn Fram í Olís-deild kvenna.

„Við vorum í vandræðum sóknarlega í upphafi seinni hálfleiks, bæði að finna leiðir framhjá vörn þeirra og svo forum við með aragrúa af færum sem var mjög dýrt.”

Fram komst í 6-2 forystu í fyrri hálfleik og Ágúst tók leikhlé á þeim tímapunkti. Valur jafnaði leikinn í kjölfarið, hvað breyttist hjá Val?

„Við slökuðum á og fjölguðum sendingum í sókninni. Við hlupum hraðaupphlaup á þær og náðum inn tveimur- þremur ódýrum mörkum. Fyrri hálfleikurinn góður en þetta var erfitt í seinni hálfleiknum.”

Lovísa Thompson lék ekki með Val í seinni hálfleik. Ágúst segir að Lovísa hafi meiðst á lokaæfingunni fyrir leik. Hann nefndi einnig að Arna Sif Pálsdóttir og Vigdís Birna Þorsteinsdóttir voru fjarverandi vegan meiðsla, stór skörð hoggin í hóp Valskvenna. Ágúst gerir ráð fyrir að þær verði klárar í slaginn eftir jólafrí.

Ágúst var að lokum spurður út í muninn á þessum leik og sigri Vals á Fram í október.

„Við fórum með 28 slútt, þar af 16 úr mjög góðum færum. Hafdís (Renötudóttir, markvörður Fram) varði frábærlega enda einn besti markmaðurinn á landinu. Það var það sem vóg hvað þyngst. Okkur vantaði einnig framlag frá fleiri leikmönnum. Það voru of margar sem voru ekki að ná fram sínum besta leik, það er eins og það er. Fram er auðvitað frábært lið, besta liðið eins og staðan er í dag,” sagði Ágúst að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×