Innlent

Stofna samtök veikra og aldraðra: „Kerfið er mafía“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Stofnfundur samtaka um aldraða og veika var haldinn í Langholtskirkju í dag.
Stofnfundur samtaka um aldraða og veika var haldinn í Langholtskirkju í dag. visir/einar
Fyrir nokkrum mánuðum var Facebooksíðan „Verndum veika og aldraða“ stofnuð og eru nú þrettán hundruð í hópnum. Eftir miklar umræður þar og reynslusögur var ákveðið að stofna samtök.

„Kerfið er mafía. Það er rosalega erfitt bákn og fólk er í því að rekast á,“ segir Berglind Berghreinsdóttir, einn stofnenda samtakanna.

Berglind Berghreinsdóttir er einn stofnenda samtakanna.
„Við erum að gera það sem okkur finnst vanta í kerfið. Við viljum bæta við og hjálpa meira, aðeins meira á persónulegum nótum, vera aðeins nánari. Við ætlum að grípa boltana sem detta niður.“

Bæði sjúklingar og aðstandendur eru í hópnum. Sjúklinga sem vantar bakland til að styðja sig í læknisheimsóknum og fá þjónustu -og aðstandendur sem eru úrvinda við að leita lausna fyrir ástvini.

„Fólk sem er komið með nóg af þessu kerfi og vill fá hjálp. Vill sjá eitthvað gerast. Því þetta þarf ekki að vera svona. Kerfið þarf ekki að vera svona. Við getum ekki gert allt en okkur langar að vera leiðbeinandi hópur,“ segir Berglind sem þurfti sjálf að berjast fyrir því að faðir henni fái viðeigandi þjónustu.

„Pabbi minn dó úr alzheimer og ég sá ýmislegt sem er þó alls ekki það versta. Eftir að ég opnaði þessa síðu hef ég lært svo mikið. Mín reynsla er bara dropi í hafið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×