Lífið

Álpaðist út í uppistand algjörlega óvart

Steingerður Sonja Þórisdóttir skrifar
Jonathan, Ebba og Snjólaug skemmta gestum á Hard Rock í kvöld.
Jonathan, Ebba og Snjólaug skemmta gestum á Hard Rock í kvöld. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Í kvöld er uppistand með þeim Snjólaugu Lúðvíks, Jonathan Duffy og Ebbu Sig í kjallaranum á Hard Rock. Ebba sagði Fréttablaðinu frá því hvernig hún hóf uppistandsferilinn og hvernig það er að grínast með ástalíf sitt áður fyrr fyrir framan kærastann.

„Þetta er í annað skiptið sem við þrjú erum saman með uppistand á Hard Rock. Síðast gekk mjög vel og það var setið í öllum sætum. Við vorum pínu hissa en glöð að sjá allt þetta fólk koma til að sjá okkur,“ segir leikkonan og grínistinn Ebba Sig. Hún segir þau hafa verið mjög sátt og ánægð með viðtökurnar.

Gekk vonum framar

Ebba lærði leiklist í Rose Bruford leiklistarskólanum, og útskrifaðist árið 2015.

„Árið 2016 samdi ég og flutti einleik sem heitir Guðmóðirin. Hann var byggður á lífi mínu að hluta, sem einhleyp kona. Einhleyp, feit kona, ef ég á að vera nákvæmari,“ segir Ebba hlæjandi.

Hún segir Guðmóðurina vera lauslega byggða á hennar eigin reynslu en einnig á sögum frá vinkonum hennar.

„Ég sýndi hana á Kaffi Laugalæk og það gekk svo ótrúlega vel. Fyrst ætluðum við bara að hafa fjórar sýningar en þetta endaði sem tíu sýningar í heild því það hélt áfram að seljast upp. Eigandi kaffihússins biður mig svo um að vera með uppistand á staffadjammi hjá þeim. Ég einhvern veginn vonaðist til þess að þetta myndi bara gleymast, þannig að ég var búin að drekka mig fulla. Svo spyr hann mig allt í einu hvort ég sé ekki tilbúin. Ég var búin að skrifa niður einhverjar hugmyndir að bröndurum. Þetta gekk svo bara mjög vel,“ segir Ebba um það hvernig hún álpaðist út í uppistandið.



Hélt þetta væri svo erfitt

Í kjölfarið fór hún að halda uppistandskvöld á Kaffi Laugalæk. Góður rómur var gerður að þeim og fór nafn hennar því að spyrjast út og fyrirtæki að hafa samband í leit að skemmtikröftum.

„Ég var með uppistand ein á Hard Rock í fyrra. Þannig æxlaðist þetta allt saman, ég hafði aldrei ætlað mér að fara í uppistand. Ég ímyndaði mér að það væri alveg hræðilega erfitt, ég er náttúrulega lærð leikkona og kann að fara með texta sem einhver annar skrifar. En svo varð ég eiginlega bara háð þessu og finnst þetta ógeðslega skemmtilegt. Þannig að ég er mest í þessu núna.“

Hún segist mest fjalla um sjálfa sig og sinn kvíða í uppistandinu.

„Ég er með ofsakvíða, heilsukvíða, ég held alltaf að ég sé með alla sjúkdóma sem til eru. Ég tala líka mikið um það þegar ég var einhleyp en núna er ég komin í samband. Þannig að það er smá skrýtin tilfinning og fyndið. En svo geri ég líka óspart grín að kærastanum mínum, af því að það er svo mikill aldursmunur á okkur. Hann er 45 ára en ég er að verða 29 ára á laugardaginn, þannig að við erum á smá ólíkri bylgjulengd. Hann er sagnfræðingur og ég grínisti, hann er aðeins háfleygari en ég. En það gengur samt allt mjög vel,“ segir Ebba.



Nammi sem enginn vill

Ebba segist áður hafa gert efni úr vandræðalegum sögum af einnar nætur gamni.

„Konur tengja ótrúlega mikið við þessar sögur, kannast við þær og hafa upplifað svipað. Svo halda þær kannski að enginn lendi í þessu nema þær, en síðan hafa svo margar konur upplifað margt af þessu. Slæmar Tinder-sögur og þannig, það er náttúrulega bara helvíti. Tinder er svona eins og laugardagur í Nammilandi og það eina sem er í boði eru súkkulaðirúsínur. Nammi sem enginn vill,“ segir Ebba hlæjandi.

Miða á uppistandið í kvöld er hægt að kaupa á Tix.is, en það hefst klukkan 21.00.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×