Íslenska kvennalandsliðið mætir því ungverska í undankeppni EM 2021 í Ungverjalandi 10. apríl 2020. Ekki liggur enn fyrir hvar leikurinn fer fram. Ísland vann fyrri leik liðanna á Laugardalsvellinum með fjórum mörkum gegn einu.
Ef karlalandslið Íslands vinnur Rúmeníu og Ungverjaland vinnur Búlgaríu í undanúrslitum umspils um sæti á EM 2020 26. mars 2020 mætast liðin í úrslitaleik á Puskás Arena í Búdapest fimm dögum síðar.
Puskás Aréna er nýr og glæsilegur þjóðarleikvangur Ungverja sem tekur tæplega 68.000 manns í sæti. Fyrsti leikurinn á honum fór fram 15. nóvember síðastliðinn þegar Ungverjaland mætti Úrúgvæ í vináttulandsleik.
Ef Ísland kemst á EM 2020 leikur það tvo leiki á Puskás Aréna.
Ljóst er að Ísland verður í F-riðli EM með Þýskalandi. Allir leikir Þjóðverja fara fram á Allianz Aréna í München en hinir þrír leikirnir í riðlinum á Puskás Arena.
Auk þess fer einn leikur í 16-liða úrslitum EM fram á Puskás Aréna. Hann er einn tólf leikvanga þar sem leikirnir á EM fara fram.
