Umfjöllun og viðtöl: HK - KA/Þór 32-27 | Kópavogsliðið í fjórða sætið

Anton Ingi Leifsson skrifar
HK vann sterkan sigur
HK vann sterkan sigur VÍSIR/bára
HK er komið upp í fjórða sæti Olís-deildar kvenna eftir fimm marka sigur á KA/Þór, 32-27, er liðin mættust í 10. umferð Olís-deild kvenna fyrr í dag.

Leikurinn var í miklu jafnvægi framan af leik og langt fram í síðari hálfleikinn en heimastúlkur reyndust að endingu sterkari aðilinn og hirtu stigin tvö. Mikilvæg stig í baráttunni um úrslitakeppni.

Markverðir beggja liða, Sara Sif Helgadóttir hjá HK og Matea Lonac í marki KA/Þór voru að verja vel í fyrri hálfleik og voru að öðrum ólöstuðum lang bestu leikmenn fyrri hálfleiks.

Gestirnir að norðan voru ávallt skrefi á undan en munurinn varð þó aldrei meira en tvö mörk í fyrri hálfleiknum. Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði svo síðasta mark fyrri hálfleiks og jafnaði metin í 14-14.

Áfram hélt jafnræðið í síðari hálfleiknum og er tíu mínútur voru eftir af leiknum var enn allt jafnt, 23-23, en þá skildu leiðir. HK vann síðustu tíu mínúturnar 9-4 og leikinn þar af leiðandi með fimm mörkum.

vísir/bára
Af hverju vann HK?

Voru með sterkari taugar á lokamínútunum og á meðan Matea Lonac datt aðeins niður í marki gestanna þá hélt Sara Sif sínu í marki HK. Sóknarleikur Kópavogsliðins var svo sterkari í lokin á meðan gestirnir fundu ekki margar leiðir framhjá þéttri vörn HK.

Hverjar stóð upp úr?

Sara Sif var frábær í marki HK. Hún endaði með tæplega 40% markvörslu en í sóknarleiknum voru það þær Díana Kristín Sigmarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir sem drógu vagninn. Díana skoraði níu mörk og Sigríður sjö.

Eftir flottan fyrir hálfleik dró af Mateu í marki KA/Þór og endaði hún með um 25% markvörslu. Í sóknarleiknum voru þær Ásdís Guðmundsdóttir og Martha Hermannsdóttir öflugastar með sex mörk og Katrín Vilhjálmsdóttir var einnig öflug. Hún gerði fimm.

Hvað gerist næst?

HK fer til Eyja og mætir ÍBV en Eyjastúlkur töpuðu í gær fyrir Stjörnunni í spennuleik. KA/Þór fær heimaleik en þær mæta Haukastúlkum í KA-heimilinu.

vísir/bára
Halldór Harri: Stelpurnar eru hungraðar


„Mér fannst við vera þéttir varnarlega en einhvernveginn náðu þær að skora og ég fékk tilfinninguna að það vantaði örlítið upp á,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari HK, upp á viðsnúninginn í síðari hálfleik.



„Við fengum vörnina og fengum Söru inn í síðari hálfleikinn sem var einnig mjög góð. Þá náum við hraðaupphlaupum og fáum þessi einföldu mörk,“ en var hann ósáttur við fyrri hálfleikinn?



„Ekki ósáttur en mér fannst okkur stelpa eiga smá inni. Við náðum aðeins að draga það fram í síðari hálfleiknum og sér í lagi síðustu fimmtán mínúturnar.“


Gengi HK hefur verið ljómandi fínt í síðustu fjórum leikjum en liðið hefur safnað fimm stigum af átta mögulegum.

„Maður er sáttur við gengi liðsins hingað til. Auðvitað vill maður alltaf meira og stelpurnar eru hungraðar og sýna metnað. Þær vilja vinna alla leiki og þannig viljum við hafa þetta,“ sagði Harri.

vísir/bára

Gunnar: Vinnum næstu helgi


„Ég er súr og svekktur. Við ætluðum okkur allt aðra hluti en þetta hér í dag. Svona fór þetta og HK voru góðar í dag,“ sagði Gunnar Líndal Sigurðsson, þjálfari KA/Þór, í leikslok.



„Við töluðum um að koma aðeins grimmari inn í varnarleikinn í síðari hálfleik. Við vorum pínu ólíkar okkur þar í fyrri hálfleik og ætluðum að bæta upp fyrir það en HK virtist vilja þetta aðeins meira og voru grimmari en við.“



„Við vorum langt undir varnarlega. Sóknarleikurinn var allt í lagi en við eigum að gera betur en þetta,“ en er áhyggjuefni fyrir hann að liðið fái á sig yfir 30 mörk í sama leiknum?



„Við erum ekki vanar að fá á okkur 30 mörk en ég hef engar áhyggjur að þetta festist svona. Við erum búnar að vera á góðu „rönni“ og það getur alltaf komið einn og einn svona inn á milli.“



Hann hefur engar áhyggjur af tapinu og er viss um að liðið muni snúa til baka og vinna leik aftur bráðlega.



„Klárlega. Næstu helgi,“ sagði kokhraustur Gunnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira