Ný vaxtatafla Landsbankans tekur gildi í dag. Taflan ber með sér margvíslegar vaxtalækkanir, bæði á íbúða- og innlánum.
Þó svo að ástæðu breytinganna sé ekki getið á vef Landsbankans þá má setja þær í samhengi við lækkun stýrivaxta í síðustu viku. Er nú svo komið að stýrivextir hafa lækkað um 1,5 prósentur frá því vor og standa í 3 prósentum, hafa aldrei verið lægri.
Vaxtabreytingar Landsbankans, sem bankinn greindi frá í morgun, eru eftirfarandi:
Fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána til 36 mánaða lækka um 0,20 prósentustig en fastir óverðtryggðir íbúðalánavextir til 60 mánaða eru óbreyttir.
Breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána lækka um 0,15 prósentustig og aðrir breytilegir óverðtryggðir vextir útlána lækka almennt um 0,10-0,25 prósentustig.
Innlánsvextir almennra veltureikninga eru óbreyttir og aðrir innlánsvextir standa ýmist í stað eða lækka um allt að 0,25 prósentustig.
Breytilegir verðtryggðir vextir íbúðalána lækka um 0,05 prósentustig og verðtryggðir innlánsvextir lækka um 0,05 prósentustig.
Samanburð á vaxtakjörum má nálgast á vef Aurbjargar.
