Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, aðstoðarmaður hans, vildu ekkert ræða mál Kolbeins Sigþórssonar á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.
Þar var landsliðshópurinn fyrir leikina gegn Tyrklandi og Moldóvu í undankeppni EM 2020 kynntur.
Kolbeinn var handtekinn vegna óláta á skemmtistað aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku. Þrátt fyrir það lék hann með AIK á laugardaginn og skoraði mark liðsins í 1-1 jafntefli við Sundsvall.
Freyr sagði að þeir Hamrén væru í stöðugu sambandi við Kolbein en samræður þeirra snúist aðallega um fótbolta. Hann kvaðst ekkert ætla að tjá sig um handtöku framherjans.
Hamrén tók í sama streng og hvatti viðstadda til að einbeita sér að fótboltanum.

