Fótbolti

Mbappé kom af bekknum og skoraði þrennu | Loks vann Real | Dybala bjargaði Juventus

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í kvöld.
Mbappé gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í kvöld. Vísir/Getty
PSG valtaði yfir Brugge í síðari hálfleik

Frakklandsmeistarar PSG áttu ekki í vandræðum með Club Brugge á útivelli í kvöld. Kylian Mbappé skoraði þrennu í 5-0 sigri gestanna. Þá vann Real Madrid 1-0 sigur á Galatasaray í Tyrklandi.

Ángel Di Maria kom Paris Saint-Germain yfir strax á 7. mínútu eftir sendingu frá landa sínum Mauro Icardi. Brugge tókst að halda PSG í skefjum þangað til í hálfleik og staðan því enn 1-0 í hálfleik.

Á 52. mínútu kom áðurnefndur Mbappé inn á og tók það hann aðeins níu mínútur að skora sitt fyrsta mark í kvöld. Tveimur mínútum síðar hafði Mbappé svo lagt upp mark fyrir Icardi og staðan orðin 3-0.

Mbappé skoraði svo tvívegis með fjögurra mínútna millibili eftir sendingar frá Di Maria undir lok leiks og tryggði þar með þrennu sína sem og 5-0 sigur gestanna frá París.

Í Tyrklandi nældi Real Madrid svo í sinn fyrsta sigur í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni þökk sé marki Toni Kroos á 18. mínútu. Real getur reyndar þakkað markverði sínum Thibaut Courtois fyrir stigin þrjú í kvöld en sá belgíski hefur legið undir mikilli gagnrýni í vetur en hann svaraði því á vellinum í kvöld.

Staðan í A-riðli er þannig að PSG er með fullt hús stiga þegar riðlakeppnin er hálfnuð. Real Madrid kemur þar á eftir með fjögur stig, Club Brugge með tvö stig og Galatasary rekur svo lestina með eitt stig.

Dybala kom Juventus til bjargar

Síðari leikur D-riðils var viðureign Juventus og Lokomotiv Moskvu. Gestirnir frá Rússlandi komu eflaust sjálfum sér á óvart þegar þeir komust yfir á 30. mínútu leiksins, þar var að verki Aleksey Miranchuk og var staðan 1-0 Lokomotiv í vil allt þangað til á 77. mínútu leiksins er Paulo Dybala jafnaði metin með frábæru skoti sem endaði alveg út við stöng.

Dybala var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar hann afgreiddi knöttinn snyrtilega í netið eftir að Guilherme Marinato, markvörður Lokomotiv, hafði varið langskot Alex Sandro. Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins.

Juventus er því á toppi D-riðils með sjö stig, líkt og Atletico Madrid eftir sigur spænska liðsins á Bayer Leverkusen fyrr í dag. Lokomotiv er í þriðja sæti með þrjú stig á meðan Leverkusen eru enn án stiga. 


Tengdar fréttir

Rauða Stjarnan réð ekkert við Tottenham Erik Lamela | Bayern í basli í Grikklandi

Tottenham Hotspur svaraði fyrir sig eftir skelfilegt tap gegn Bayern Munich í síðustu umferð Meistaradeildarinnar. Þá tapaði liðið 7-2 gegn þýsku meisturunum en í kvöld lagði liðið Rauðu Stjörnuna frá Serbíu örugglega í London, lokatölur 5-0 Tottenham í vil. Þá vann Bayern Munich 3-2 sigur á Olympiacos í Grikklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×