Innlent

Stal kexpakka og hrækti ítrekað á starfsmann verslunar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt.
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í gærkvöldir afskipti af manni sem grunaður var um að hafa stolið kexpakka úr verslun í Breiðholti. Maðurinn brást ókvæða við afskiptum starfsmanns verslunarinar.

Í dagbók lögreglu kemur fram að maðurinn hafi slegið starfsmanninn í andlitið og hrækt ítrekað á andlit hans.

Lögregla kom á vettvang og handtók manninn. Skýrsla var tekin af honum áður en hann var látinn laus.

Þá var töluvert var um ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í nótt og þurfti lögregla og sjúkraflutningamenn meðal annars að bregðast við útafakstri í Heiðmörk í nótt. Fjórir farþegar á aldrinum sextán til 21 árs voru í bílnum.

Var þeim ekið af lögreglu og sjúkraflutningamönnum á bráðadeild til aðhlynningar en ekki er vitað um meiðsli þeirra. Ökumaður bílsins er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Var hann handtekinn og færður í fangageyslur lögreglu vegna rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×