Íbúum á Suðurlandi fjölgar mjög hratt en mesta fjölgunin er í sveitarfélögunum í kringum höfuðborgarsvæðið eins og í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi. Það er líka töluvert byggt á Hellu og Hvolsvelli svo einhverjir staðir séu nefndir. Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu og sveitarstjórnarmála fór yfir málið á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga í vikunni á Hótel Geysi.
„Fyrir tíu árum þá var hlutfalla landsmanna á Suðurlandi 7,5 prósent en er núna komið í 7,7 prósent. Þannig að það er svona hlutfallsleg aukning fyrir utan raunaukninguna. Það vakti reyndar athygli mína þegar rýnt er í tölur um íbúafjölgun að það hefur orðið fjölgun í fjórtán af fimmtán sveitarfélögum á Suðurlandi síðustu árin og það er aðeins í mínu sveitarfélagi, Hrunamannahreppi þar sem hefur ekki orðið fjölgun, okkur hefur fækkað um tvo síðustu tíu árin, reyndar eftir mikla fjölgun tíu árin þar á undan“, sagði Sigurður Ingi á ársþinginu.
Nú er verið að kanna með sameiningu sveitarfélaga á Suðurlandi, Sveitarfélagið Árborg er til dæmis að kanna hug allra sveitarfélaga í Árnessýslu um vilja þeirra til sameiningar og sveitarfélögin í Rangárvallasýslu eru líka að skoða sameiningarmál.
En hvernig er stemmingin almennt fyrir sameiningarmálum í landinu?
„Mér finnst hún hafa verið miklu, miklu jákvæðari og meiri. Ég held að það stafi meðal annars af því að sveitarstjórnarfólkið er smátt og smátt að taka við svo mörgum verkefnum sem það áttaði sig ekki á þegar það hóf störf í sveitarstjórn“, segir ráðherrann.

„Einhver sjö eru með tíu þúsund íbúa og fleiri en það eru líka sjö, sem eru með færri en 100 íbúa. Öll búa þessi sveitarfélög eiga að uppfylla sömu lögbundnu skilyrðin og það segir sig sjálft að það er mörgum minni sveitarfélögunum erfitt. Og lýðræðislega hefur þá sá halli orðið á að minni sveitarfélögin, sem gera samning við stærri sveitarfélögin, íbúarnir í litlu sveitarfélögunum ráða þá í raun og veru ekkert um þá þjónustu, sem er veitt og til þess að gera þessi samskipti á milli ríkis og sveitarfélaga auðveldari og á meiri jafningja grunni þá held ég að það sé mjög mikilvægt að sveitarstjórnarstigið eflist“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu og sveitarstjórnamála.
