Breki Gylfason gerði tveggja ára samning en hann er að koma heim úr námi í Bandaríkjunum.
Haukarnir halda því áfram að styrkja sig með fyrrum leikmönnum félagsins en þeir endurheimtu líka Kára Jónsson rétt fyrir mót og þá snéri Emil Barja einnig heim í sumar.
Breki lék síðast með Haukaliðinu tímabilið 2017-2018 og var partur af Deildarmeistaraliði Hauka. Þá hefur hann verið í leikmannahópi A- landsliðs Íslands og lék með liðinu á síðustu Smáþjóðaleikum.
Breki var með 7,8 stig og 3,3 fráköst að meðaltali í deildarkeppninni 2017-18 en í úrslitakeppninni var hann með 6,1 stig og 2,9 fráköst í leik.
Breki varði síðasta tímabili í Bandaríkjunum þar sam hann var við nám við Appalachian State University en vegna breytinga hjá liði skólans ákvað hann að snúa heim og taka slaginn með Haukaliðinu.
Á eina tímabili sínu með Appalachian State var Breki með 2,2 stig og 0,8 fráköst að meðaltali á 6,6 mínútum og á því sést að hann var ekki með stórt hlutverk í liðinu.
„Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikill styrkur liggur í því að fá Breka aftur til liðsins og eru Haukar nú orðnir gríðarlega vænlegir til árangurs,“ segir í fréttatilkynningu Hauka.