Innlent

Skjálftar geta fylgt örvun bor­holu á Geldinga­nesi

Atli Ísleifsson skrifar
Geldinganes. Holan var boruð haustið 2001 en hefur ekki gefið nægt vatn til að rétt þætti að tengja hana hitaveitunni.
Geldinganes. Holan var boruð haustið 2001 en hefur ekki gefið nægt vatn til að rétt þætti að tengja hana hitaveitunni. vísir/vilhelm
Veitur munu á næstu dögum hefja örvun borholu í Geldinganesi og er möguleiki að smáir jarðskjálftar fylgi aðgerðinni.

Í tilkynningu frá Veitum segir að þetta sé í samræmi við áætlanir um að þróa Geldinganes sem vinnslusvæði jarðhita fyrir hitaveituna í Reykjavík. Holan var boruð haustið 2001 en hefur ekki gefið nægt vatn til að rétt þætti að tengja hana hitaveitunni.

„Vatnið í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu á sér tvennan uppruna; lághitavatn svokallað sem kemur beint úr borholum í Reykjavík og Mosfellsbæ eða háhitavatn, sem er upphitað kalt vatn frá jarðgufuvirkjununum á Hengilssvæðinu. Þessu vatni má ekki blanda saman og þróun byggðarinnar hefur verið með þeim hætti að aukin þörf er fyrir lághitavatn. Áætluð vatnsöflun í Geldinganesi er til að mæta þeirri þörf.

Frá árinu 1970 hafa allar holur sem boraðar hafa verið á lághitasvæðunum í Reykjavík – við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Laugavegar annarsvegar og svo í Elliðaárdal – verið örvaðar. Hið sama hefur verið gert á lághitasvæðunum í Mosfellsbæ þar sem hátt í 40 holur hafa verið örvaðar. Í flestum tilvikum hefur örvunin haft mikil og góð áhrif og rennsli úr holunum hefur aukist allt að fertugfalt.

Örvunin getur valdið smáum jarðskjálftum en fáum sögum fer af því í sögu jarðhitanýtingarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður þykir rétt að benda á þá hættu. Meðan á örvun stendur er virkt eftirlit með viðbrögðum jarðskorpunnar og um 40 jarðskjálftamælar eru nú á svæðinu. Örvun fer þannig fram að vatni er dælt niður í holuna og viðbrögð eru könnuð jafnharðan. Ferlið er hægt í fyrstu og dælingin aukin í þrepum. Milli þrepanna er staðan tekin til að sjá hvernig jarðhitakerfið hefur brugðist við,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×