Innlent

ASÍ og BSRB stofna rann­sóknar­stofnun í vinnu­markaðs­fræðum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Drífa Snædal, forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa ákveðið að setja á fót rannsóknarstofnun í vinnumarkaðsfræðum til að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Tilgangurinn með rannsóknarstofnuninni er sagður vera að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks og brúa bilið á milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar. Stofnuninni er ætlað að dýpka umræðuna um kaup og kjör og koma þannig með auki fóður inn í baráttu launafólks fyrir bættri afkomu með betri lífsskilyrðum.

Stofnunin mun vera þverfagleg og sjálfstæð í sínum störfum.

Til að skapa rannsóknarstofnuninni rekstrargrundvöll tryggja ASÍ og BSRB sameiginlega fjármagn og aðstöðu. Í tilkynningu kemur fram að vonir standi til þess að stofnunin hefji starfsemi sem allra fyrst.

„Það er von mín að með nýrri rannsóknarstofnun fáum við betri upplýsingar um stöðu vinnandi fólks og hvernig bæta megi hag almennings. Það skiptir miklu máli að búa til og miðla þekkingu á okkar eigin forsendum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×