Landlæknir vill að heilbrigðisráðherra beiti sér í baráttunni gegn rafrettureykingum barna, ekki síst hvað varðar bragðefni og umbúðir sem sérstaklega höfða til ungmenna. Það sé heimild í lögum til að banna efnin, sem Landlæknir hvetur stjórnvöld að gera.
Hópur rafrettuverslana á Íslandi hefur nú bundist samtökum, Hjalti Ásgeirsson er talsmaður þeirra og segir hann verslanirnir ekki mótfallnar því að takmarka veip-reykingar barna. Þvert á móti vilji þær aðstoða í baráttunni og kalla eftir áheyrn.
„Við viljum fá þann möguleika að vera með í þessari baráttu. Það erum við sem erum í fremstu víglínu, það erum við sem þekkjum neysluvenjur, tæknina, markaðinn og þróunina. Það er því frekar óábyrgt af yfirvöldum að hafa okkur ekki með í samræðunum um hvernig við getum spornað gegn reykingum ungmenna,“ segir Hjalti.

Ekki hagur af sölu til ungmenna
Verslanirnar vinna nú að úrbótatillögum sem þær hyggjast leggja fyrir heilbrigðisyfirvöld, sem kveða meðal annars á um háar fjársektir á veipverslanir ef þær selja börnum vörur, sem og aukið forvarnarstarf.„Skólarnir þurfa líka að koma til og vera með betra eftirlit, hafa samband við foreldra og ef þetta er endurtekið brot að hafa samband við Barnavernd. Það er það sem við gerum í búðunum, ég hafði þrisvar samband við Barnavernd út af því að börn voru að panta sér vörur á netinu og foreldrarnir gera ekkert í því.“
Það sé hagur veipverslana að sporna við rafrettureykingum ungmenna, það dragi úr gagnrýni á starfshætti verslananna.
„Við erum að reyna að hjálpa fólki að hætta að reykja, við erum ekki að reyna selja börnum þetta því við græðum ekkert á því. Það er bara að fara að búa til neikvæða umræðu um markaðinn sem við erum að reyna að tala upp. Þetta er skaðaminnkandi leið, í stað sígaretta eða annars tóbaks.“
Tillaga Landslæknis um að takmarka eða banna bragðefni í rafrettru sé þó misráðin.
„Það myndi einfaldlega færa þessar vörur yfir á svarta markaðinn, sem myndi auðvelda aðgengi ungmenna að þeim. Það eykur líkur hættuna af þessu, vegna þess að þar er ekkert eftirlit með því hvað er í þessu,“ segir Hjalti.