Una Hildardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna í Suðvestukjördæmi og formaður Landssamtaka ungmennafélaga, sækist eftir embætti ritara flokksins. Stjórnarkjör fer fram á Landsfundi Vinstri grænna þriðju helgina í október. Una hefur gegnt embætti gjaldkera VG í fjögur ár en sækist nú eftir öðru hlutverki innan forystu flokksins en hún hefur tekið virkan þátt í starfi VG frá árinu 2011.
„Ég vil halda áfram að leggja mitt að mörkum og vinna fyrir hreyfinguna á vettvangi stjórnar. Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir í nýju embætti,“ skrifar Una í framboðsyfirlýsingu sem birtist á vef VG í dag.
Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, er ritari flokksins í dag en hún lýsti því yfir á flokksráðsfundi í haust að hún hyggist ekki sækjast eftir endurkjöri. Í samtali við Vísi segist Elín Oddný telja eðlilegt að regluleg endurnýjun sé í forystu flokksins og eftir fjögur ár í embætti ritara hyggist hún einbeita sér áfram að því að sinna þeim störfum sem hún er kjörin til að gegna fyrir hönd Vinstri grænna.
Í gær lýsti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra því yfir að hann sækist eftir embætti varaformanns flokksins en sitjandi varaformaður hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri.
Una sækist eftir embætti ritara VG

Tengdar fréttir

Guðmundur Ingi sækist eftir varaformannssæti VG
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hyggst sækjast eftir varaformannssæti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á landsfundi flokksins sem mun fara fram í október.