Innlent

„Öfgar og sýndarmennska munu aldrei þoka okkur í rétta átt“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Fréttablaðið/Eyþór
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur haft í nógu að snúast undanfarna daga ef marka má nýja færslu hans á Facebook í dag, og dagskráin er þétt skipuð í dag. Hann segir að þrátt fyrir að bíllausi dagurinn sé í dag muni einhverjir sjá hann á bíl, enda sé vandkvæðum bundið að komast með fjölskylduna á þá viðburði sem þarf að sækja hér og þar.

Í færslunni lýsir Guðni síðustu dögum. Um liðna helgi sótti hann Miðgarðshátíðina þar sem honum þótti gaman að spjalla við gesti og gangandi.

„Til dæmis var afar gaman að prófa tölvuleikinn sem liðsmenn Myrkurs vinna að þótt fáum sögum fari af afrekum mínum þar,“ skrifar Guðni sem telur allt sé gott í hófi, ekki síst skemmtilegir leikir og tómstundir þar sem fólk leyfir sér að láta hugann reika í töfraveröldum.

Þá fylgdist forsetinn grannt með aðgerðum ungmenna víða um heim þar sem þau krefjast róttækari viðbragða í loftslagsmálum.

„Kappið og einlægnin eykur von,“ skrifar Guðni sem heldur á morgun í opinbera heimsókn til Grænlands. Þá minnist hann sem fyrr segir á bíllausa daginn.

„Og í dag er bíllausi dagurinn, ágætis áminning um nauðsyn þess að efla almenningssamgöngur og huga að umhverfisvænum lífsstíl. En samt munu einhverjir sjá mig á bíl í dag ef að líkum lætur; að komast með fjölskylduna með strætó á þá viðburði sem fyrir liggja um borg og bí væri miklum erfiðleikum bundið, vægast sagt. Öfgar og sýndarmennska munu aldrei þoka okkur í rétta átt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×