Innlent

Tryggja rétt til að velja raforkusala

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Markmið breytingannar er að tryggja neytendavernd.
Markmið breytingannar er að tryggja neytendavernd. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta hefur mjög mikið að segja fyrir okkur og aðra á raforkumarkaði sem eru ekki tengdir þessum dreifiveitum. Þær eru allar opinber fyrirtæki sem eru flest mjög stór og umsvifamikil. Þau hafa verið að stíga inn á samkeppnismarkaðinn mjög reglulega og taka viðskipti af raforkusölufyrirtækjunum,“ segir Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar, um drög að nýrri reglugerð um raforkuviðskipti.

Er reglugerðinni meðal annars ætlað að tryggja rétt neytenda til að velja sér raforkusala, auðvelda notendaskipti með rafrænum hætti og stytta uppsagnarfrest neytenda á samningi. Magnús telur að um sé að ræða nauðsynlegt og jákvætt skref til þess að markaðurinn geti þróast áfram sem samkeppnismarkaður. Hann bendir á að dreifiveitan sé fyrsta stoppið til dæmis þegar fólk flytur eða fyrirtæki setji upp nýjan mæli eða nýja veitu. Verklagið sé þannig að viðskiptin séu sett á svokallaðan sjálfgefinn söluaðila sem sé í öllum tilvikum aðili tengdur dreifiveitunni.

Fyrirtæki hans hafi til að mynda misst fjóra viðskiptavini með þessum hætti í síðustu viku. Á síðasta ári kærði Orka heimilanna þetta verklag og úrskurðaði Orkustofnun í mars síðastliðnum að það væri ólögmætt.

„Það hefur lítið breyst síðan þá þótt það sé liðið rúmt hálft ár og þetta verklag er enn í fullu gildi. Þessi nýja reglugerð tekur af allan vafa um algjöran rétt neytenda til að velja hvaðan hann kaupir rafmagnið,“ segir Magnús. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×