Kosið verður til ritara Sjálfstæðisflokksins á laugardag í kjölfar þess að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var skipuð dómsmálaráðherra.
Í færslunni fullyrðir Eyþór að hann hafi fengið fjölda símtala og hvatningu frá sjálfstæðisflokka. Það krefjist hins vegar einbeitingar og fullrar athygli að leiða Sjálfstæðisflokkinn áfram og upp á við.
„Ég tel að það gagnist borgarbúum best að ég sé óskiptur í því verki sem ég tók að mér á síðasta ári. Því hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér til embættis ritara Sjálfstæðisflokksins,“ skrifar hann.
Kosning um ritara fer fram á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins sem verður haldinn í Reykjavík á laugardag. Þó að Eyþór verði þar ekki í framboði situr hann ekki auðum höndum í kringum fundinn. Samkvæmt dagskrá á hann að flytja vinsæl Todmobile-lög ásamt Stefaníu Svavars á skemmtun að fundi loknum.
Eyþór er ekki sá eini sem dró nafn sitt úr umræðunni um nýjan ritara flokksins í dag. Vala Pálsdóttir, formaður Landsambands Sjálfstæðiskvenna, gerði það sömuleiðis.
„Að vel ígrunduðu máli ætla ég að halda áfram á þeirri braut sem ég hef markað með landssambandinu fremur en að taka við starfi ritara flokksins. Ég kann betur við formannstitilinn,“ segir Vala á léttum nótum.