Innlent

Fleiri lögreglufélög fagna úttekt á ríkislögreglustjóra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglumenn á Suðurnesjum taka undir ákall um allsherjar stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra.
Lögreglumenn á Suðurnesjum taka undir ákall um allsherjar stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Vísir/GVA
Lögreglufélag Suðurnesja lýsir yfir stuðningi við ákall Landssambands lögreglumanna um úttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Félagið telur að hraða beri úttektinni eins og kostur er svo friður geti skapast sem fyrst um störf lögreglunnar.

Dómsmálaráðuneytið óskaði nýverið eftir því að Ríkisendurskoðun geri heildarúttekt á embætti ríkislögreglustjóra og var það gert eftir að ákveðið var að leggja niður Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra. Miðstöðin verður lögð niður um áramótin en miklir vankantar á rekstri Bílamiðstöðvarinnar þóttu ástæða til að ráðast í úttekt.

Landssamband lögreglumanna taldi slíka úttekt tímabæra því „mikil óánægja hafi ríkt meðal lögregluþjóna um langt skeið með störf yfirstjórnar embættis ríkislögreglustjóra,“ eins og fram kom í yfirlýsingu frá landssambandinu í síðustu viku.

Sjá einnig: Stjórnsýslan hjá Haraldi skoðuð

Lögreglufélag Suðurnesja tekur í sama streng í ákalli sem það sendi fjölmiðlum í dag. Þar er meðal annars vikið að málum er varða einkennisfatnað lögreglunnar, sem félagið segja hafa verið í miklum ólestri um langa hríð. Fyrrnefnd bílamál hafi jafnframt verið deiluvaldandi eins og rekið hefur verið í fjölmiðlum.

„Við þetta ástand verður ekki unað enda kastar það rýrð á lögregluna og störf hennar sem grefur undan því mikla trausti sem almenningur ber til lögreglunnar,“ segir Lögreglufélag Suðurnesja um leið og það skorar á dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að beita sér fyrir ásættanlegri lausn mála.

Suðurnesjafélagið er ekki fyrsta lögreglusambandið sem fagnað hefur alhliða stjórnsýsluúttekt. Það gerður til að mynda stjórnir Lögreglufélags Eyjafjarðar og Lögreglufélags Þingeyinga á þriðjudag, auk þess sem Lögreglufélag Reykjavíkur hafði áður óskað eftir slíkri úttekt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×