Fótbolti

Liverpool liðið með slökustu byrjun Evrópumeistara í aldarfjórðung

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane og félagar uppskáru ekkert í Napoli í gærkvöldi.
Sadio Mane og félagar uppskáru ekkert í Napoli í gærkvöldi. Getty/ Francesco Pecoraro
Það þarf að fara langt aftur til að finna titilvörn í Meistaradeildinni sem byrjaði jafn illa og hjá Liverpool liðinu í gærkvöldi.

Liverpool byrjaði titilvörn sína í Meistaradeildinni ekki vel eða með 2-0 tapi á útivelli á móti ítalska félaginu Napoli.

Dries Mertens og Fernando Llorente skoruðu mörk Napoli á síðustu átta mínútunum en seinna markið kom á annarri mínútu í uppbótatíma.

Fyrra markið kom úr umdeildri vítaspyrnu sem Andy Robertson fékk dæma á sig en það seinna eftir óvenjuleg mistök hollenska miðvarðarins Virgil van Dijk

Það þarf að fara aftur til ársins 1994 til að finna Evrópumeistara sem byrjuðu titilvörn sína á tapi.





AC Milan tapaði þá 2-0 á útivelli á móti Ajax og bæði mörkin komu í seinni hálfleiknum. Mörkin skoruðu þeir Ronald de Boer og Jari Litmanen. Bæði Ajax og AC Milan komust á endanum upp úr riðlinum.

Ajax og AC Milan fóru síðan alla leið í úrslitaleikinn þar sem Ajax vann 1-0 sigur með marki Patrick Kluivert fimm mínútum fyrir leikslok.

Titilvörn Real Madrid í fyrra hófst á 3-0 heimasigri á Roma og árið á undan byrjaði titilvörn Real Madrid á 3-0 heimasigri á APOEL frá Kýpur. Real vann síðan 2-1 heimasigur á Sporting CP haustið 2016.     

Annars eru vandræði Liverpool mikil á útivelli í riðlakeppninni en liðið hefur nú tapað fjórum útileikjum í röð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×